151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu um brýn hagsmunamál landsbyggðar. En hún er ekki ný af nálinni. Hún er áratugagömul. Þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar hefur sannast sagna verið látinn reka á reiðanum, líka í því sem lýtur að aðkomu og hlutverki þjóðarsjúkrahússins sem lítur mest inn á við en ekki út á við. Eins og umgjörð þessarar þjónustu við landsbyggðina hefur þróast fá sérfræðingar, sem yfir höfuð fást út á land, greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir hvert viðvik samkvæmt gjaldskrá, allt skilgreint og verðlagt á einingargrundvelli.

Það liggur nákvæmlega fyrir hversu mikið íbúar á landsbyggðinni nota sérfræðiþjónustu, hvaða peningum Sjúkratryggingar verja til þjónustunnar til íbúa sem eiga heima úti á landi, upp á krónu. Þeir leita í margfalt minna mæli til sérfræðinga en höfuðborgarbúar, og ef þeir gera svo, þá þurfa þeir oftast að koma á læknastofu í Reykjavík. Það er auðvitað þægilegast fyrir sérfræðinginn, en það er dýrast og óþægilegast fyrir sjúklinginn. Þannig á þetta auðvitað ekki að vera.

Ég segi: Einingarnar heim, greiðslueiningarnar heim. Er ekki eðlilegra að heilbrigðisumdæmin fái meira faglegt og fjárhagslegt sjálfræði til að kalla eftir þjónustu sérfræðinga, eftir mati, með því að fá þær skilgreindu einingar heim sem íbúarnir nýta sér? Að greiðslur til sérfræðinga séu að einhverju leyti skilyrtar því að þjónustan sé veitt á heimaslóðum sjúklinga en ekki fyrst og fremst í Reykjavík? Hvað finnst hæstv. ráðherra?

Virðulegur forseti. Er ekki tímabært að setjast nú yfir málin, skilgreina hlutverk þjóðarsjúkrahússins í þessu efni og horfa til framtíðarskipulags, horfa yfir allt sviðið og til þjónustunnar við dreifðar byggðir, í ljósi nýrrar tækni og möguleika til að hágæðaþjónustu, m.a. fjarheilbrigðisþjónustu, eins og hæstv. ráðherra nefndi, bæði það sem snýr að faglegum þáttum en einnig kostnaðarskiptingu verkefna, af því þetta snýst að verulegu leyti um fjármuni?

Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því?