151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Fréttir um meðferð þeirra sem dvöldu á vistheimilinu Arnarholti í kringum 1970 og fyrr hafa vakið óhug í samfélaginu. Lýsingar sem hafa komið fram eru sláandi og fram hefur komið ákall um að farið verði ofan í kjölinn á málinu og raunar á málum um aðbúnað og meðferð annarra sambærilegra heimila. Þær upplýsingar sem varða Arnarholt hafa verið opinberaðar og það góða frumkvæði sem Steinunn Finnbogadóttir, heitin, borgarfulltrúi hafði á þeim tíma.

Málið kom til umræðu á fundi velferðarnefndar í morgun og þar lagði ég fram eftirfarandi tillögu:

Velferðarnefnd beini því til hæstv. forsætisráðherra að láta fara fram rannsókn á aðbúnaði, þjónustu og meðferð fullorðins fólks með fatlanir, þroskahamlanir og geðraskanir sem bjó eða dvaldi á stofnunum og hjá meðferðaraðilum á Íslandi. Fréttir af aðbúnaði á Arnarholti og erindi Þroskahjálpar og Geðhjálpar, sem nefndinni hafa borist, og opinber umræða í kjölfarið hafa vakið margar spurningar. Nefndin telur mikilvægt að málinu sé strax komið í þann farveg að hægt verði að skoða til hlítar. Nefndin telur að forsætisráðuneytið sé best til þess fallið að hafa þá yfirsýn sem þarf í svo viðamiklu máli auk þess sem þar er nú þegar reynsla og þekking á sambærilegum málum.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað til næsta fundar og nefndin kann vissulega að komast að einhverri annarri lendingu eða sameiginlegri niðurstöðu, og væri það óskandi.

Forsætisráðuneytið hafði umsjón með skýrslum og athugunum á Breiðavíkurheimilinu, Kópavogshæli, Heyrnleysingjaskólanum og fleiri stofnunum á árunum 2007–2016 og hefur fylgt þeim eftir. Reykjavíkurborg hefur þegar hafið skoðun á málinu og ljóst að það mun þurfa samvinnu borgarinnar og forsætisráðuneytisins í málinu ef af verður. Málið snertir málasvið a.m.k. þriggja ráðuneyta og því er mikilvægt, að mínu mati, að forsætisráðuneytið, sem hefur samræmingarhlutverk, fari með málið. Ég tel afar mikilvægt að málinu verði sem fyrst komið í farveg þannig að óvissu sé eytt og skoðun á málinu hafin og það lendi ekki í pólitískum skotgröfum. Verkefnið er stórt og ekki ólíklegt að þegar umfang þess verður ljóst þurfi að leita eftir stuðningi (Forseti hringir.) þingsins með fjárframlögum og jafnvel heimildir til skoðunar á gögnum. Ég treysti því að þegar þar að kemur muni þingið greiða götu slíkra mála.