151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

tafir á aðgerðum og biðlistar.

117. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og líka innlegg þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls. Það er alveg ljóst að umræðan stendur okkur öllum töluvert nærri. Mig langaði að bakka svolítið vegna orða hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar. Ég get heilt yfir verið sammála því að krísuástand sé ekki endilega ástæða til að taka svona stefnumarkandi ákvarðanir. En okkur greinir á um hvort verið sé að gera það vegna þess að við erum með blandað kerfi, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir bendir á, þannig að ég tel það eiginlega akkúrat vera stefnumarkandi ákvörðun að leita ekki til þeirra einkaaðila sem geta og hafa boðist til að aðstoða við að létta á biðlistum. Ég myndi vilja sjá það til lengri tíma, en ég er að tala hér um akkúrat í því fári sem við búum við núna. Og varðandi það að það geti aukið álag á kerfinu þá hef ég skoðað tölur frá því að sú orðræða kom upp og ég get ekki séð neitt sem rennir stoðum undir það að raunveruleg ástæða sé til að hafa áhyggjur af því.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innleggið, það var að mörgu leyti upplýsandi. Við munum halda þessu áfram, en ég hjó sérstaklega eftir því sem hæstv. ráðherra talaði um, að samkvæmt lögum gætu heilbrigðisstofnanir, ef þeim sýndist svo, ef þær réðu ekki við verkið, ef svo má segja, leitað út fyrir og falið öðrum til þess bærum aðilum að framkvæma aðgerðir. Ég túlka þetta sem svo að það væru þá sérfræðingar utan ríkisrekna kerfisins í þessu tilfelli, en að engin ósk hefði borist frá þeim um slíka heimild. Ég undra mig verulega á því ef staðan er sú að þeir séu með þann bolta. Mig langar að biðja ráðherra um að útskýra það betur fyrir mér. Ég hefði haldið að útgangspunkturinn væri hjá hæstv. ráðherra og að gögnin sem þar lægju til grundvallar væru einfaldlega títtnefndir biðlistar og einstaklingar á þeim.