151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

vernd barna gegn ofbeldi í skólastarfi.

257. mál
[17:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrirspurnina. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt mál. Eitt af því sem skiptir börn og ungt fólk mestu máli er að þeim líði vel í skólanum. Ég var að kynna nýja menntastefnu í þingsályktunartillögu hér í gærkvöldi og ein af grunnstoðunum þar er að við setjum vellíðan í öndvegi. Við nefnum þar nokkra þætti. Við nefnum forvarnir, við nefnum geðrækt og heilsueflingu. Hvað virkar best? er spurt. Það sem virkar best eru forvarnir. Það virkar best að skólasamfélagið, foreldrar og allir taki höndum saman um að búa til jákvæðan skólabrag. Þar sem það hefur verið gert, og ég hef kynnt mér þessi mál nokkuð vel eins og hv. þingmaður, hefur það virkað, þannig að fólk þurfi ekki að enda með mál sitt hjá fagráði eineltismála sem er hjá Menntamálastofnun, það er í raun endastöðin. Við viljum fara í mun meiri forvarnir og við erum að búa til áætlun sem miðar að því. Það tekur nokkur ár að hrinda því í framkvæmd vegna þess að verkefnið er mjög umfangsmikið og það þarf að fara inn í hvern einasta skóla. Þetta þarf að vera gert á landsvísu þannig að sami aðgangur sé að þessu forvarnastarfi, og eins og ég segi þá höfum við mesta trú á því.

Eins og hv. þingmaður nefndi fórum við í ákveðna vinnu, og löggjöf var samþykkt á Alþingi um samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsmálum varðandi kynbundið ofbeldi. Við fórum í þá vinnu með íþrótta- og æskulýðshreyfingunni, og það var að þeirra frumkvæði. Grasrótin hafði samband og við hlustuðum. Þar er fulltrúi sem á að ráðleggja þeim sem eru fórnarlömb í svona málum, hvernig hægt er að koma inn í þau, hann er þriðji aðilinn sem er hlutlaus. Samskiptaráðgjafinn hóf störf — þegar maður stendur hér í pontu þá finnst mér eins og það hafi verið í gær en ég held að það hafi verið um síðustu áramót, og reynslan af því virðist vera býsna góð. Það eru forvarnir. En svo þarf að mínu mati að vera ákveðið millistykki til að fást við tilfelli sem eru mjög aðkallandi. Það sem hefur verið að gerast hjá fagráðinu er að þau geta komið inn í málin, að sjálfsögðu með mjög formlegum hætti, og þau taka tillit til allrar stjórnsýslu, því að þetta eru oft ofboðslega viðkvæm mál. En það sem við þurfum að bæta er að setja jafnvel inn fulltrúa að þessari fyrirmynd, samskipta- og æskulýðsfulltrúa, að þar sé aðili sem getur komið inn í mjög erfið mál með tiltölulega stuttum fyrirvara.

Við höfum ákveðna reynslu af frábæru framtaki sem heitir Erindi. Þau sinntu þessu hlutverki og einn af sérfræðingunum þar starfar nú í fagráði eineltismála. Við þurfum eiginlega að blanda þessu saman. Það eru í fyrsta lagi forvarnir, mjög umfangsmiklar, miklu meiri en verið hefur, og það þarf að taka þetta reglubundið. Eineltismál hafa þróast. Þegar við vorum ung voru ekki til öll þessi snjalltæki og sumt af því sem er að gerast í eineltismálum er eitthvað sem foreldrar þurfa að kynnast í gegnum börnin sín og hafa ekki einu sinni fræðslu eða hugmynd um hvað er að gerast.

Ég er í samtali við Menntamálastofnun um að auka þetta viðbragð. Ég held að það sé mjög brýnt og ég heyri að það er reynsla Menntamálastofnunar. Ég myndi segja að við séum að tala um þríþætta nálgun. Við þurfum að fjárfesta betur í forvörnum og ég hef verið í samtali við nokkra fagaðila um áætlun sem yrði jafnvel þriggja ára áætlun, mjög metnaðarfull, sem tæki mið af íslenskum aðstæðum. Við þurfum að koma hraðar og öruggar að þessum málum og svo hefur fagráðið auðvitað verið að sinna því sem það getur sinnt.