151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:08]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004, á þskj. 397 í 336. máli. Samkvæmt lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, er jöfnunargjald raforku lagt á viðskiptavini dreifiveitna til að standa straum af jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Gjaldið var tekið upp árið 2015 og er fjárhæð jöfnunargjalds 0,30 kr. á hverja kílóvattstund af þeirri raforku sem fer um dreifikerfi raforku. Í landinu eru reknar fimm dreifiveitur fyrir rafmagn og tvær af þeim, Rarik og Orkubú Vestfjarða, dreifa verulegum hluta raforkunnar eftir svokallaðri dreifbýlisgjaldskrá innan skilgreinds dreifbýlis. Þessar dreifiveitur eru því annars vegar með dreifbýlisgjaldskrá og hins vegar með þéttbýlisgjaldskrá. Núverandi tekjur af jöfnunargjaldi raforku eru 990 millj. kr. og þær renna í að jafna dreifikostnað raforku í dreifbýli til samræmis við dreifikostnað í þéttbýli, þ.e. að niðurgreiða dreifbýlisgjaldskrárnar þannig að þær séu nær þéttbýlisgjaldskránum.

Upphaflega, frá árinu 2005, var framlag til jöfnunar dreifikostnaðar á fjárlögum 240 millj. kr. á ári. Árið 2014 var ljóst að það framlag dygði ekki lengur til að ná markmiðum laganna og var því með lagabreytingunni 2015 tekið upp sérstakt jöfnunargjald raforku. Hefur fjárhæð jöfnunargjaldsins verið óbreytt síðan. Frá upptöku jöfnunargjalds raforku hefur kostnaður við dreifingu raforku haldið áfram að aukast í dreifbýli umfram kostnað í þéttbýli. Þörf fyrir aukið framlag til jöfnunar dreifikostnaðar raforku hefur því vaxið jafnt og þétt á síðustu fimm árum. Kostnaður af því að ná fullri jöfnun í dag milli dreifbýlis og þéttbýlis er áætlaður um 2.000 millj. kr., 2 milljarðar. Um 1 milljarð vantar upp á til að ná því markmiði.

Ýmsar ástæður liggja að baki þessari þróun varðandi ólíkan orkukostnað í dreifbýli og þéttbýli. Veruleg fjárfestingarþörf er hjá Rarik og Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli umfram fyrri áætlanir, m.a. í tengslum við vaxandi kröfur um þrífösun raforku, lagningu eldri loftlína í jörðu, uppgang í ferðaþjónustu undanfarin ár og aukna raforkunotkun í dreifbýli sem því tengist. Á sama tíma eru almennt færri notendur í dreifbýli til að standa undir þeim fjárfestingum í gegnum dreifbýlisgjaldskrár Rariks og Orkubús Vestfjarða. Sú þróun hefur leitt til hækkana á gjaldskrám í dreifbýli sem leitt hefur til þess að munurinn á dreifikostnaði í dreifbýli og þéttbýli hefur vaxið að nýju eins og var fyrir árið 2015. Að óbreyttu mun sú þróun halda áfram næstu fjögur, fimm árin. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir áframhaldandi línulegum vexti til framtíðar heldur verði hámarki fjárfestingarþarfar í dreifbýli náð á næstu fjórum, fimm árum. Eftir það muni draga úr fjárþörf til jöfnunar dreifikostnaðar. Átak stjórnvalda til að flýta þrífösun og jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku hefur þar sömuleiðis áhrif.

Í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 er vakin athygli á þeirri þróun og kemur þar fram að í samræmi við stefnu stjórnvalda, um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu, sé í útgjaldaramma málefnasviðs 15, sem eru orkumál, gert ráð fyrir auknum framlögum til jöfnunar á dreifikostnaði raforku sem nemur 730 millj. kr. á ári. Þar er annars vegar um að ræða 13% verðlagshækkun á jöfnunargjaldi raforku sem skilar um 130 millj. kr. til ríkissjóðs, sem er það frumvarp sem ég er hér að mæla fyrir, og hins vegar framlag úr ríkissjóði upp á 600 millj. kr. Þau áform komu jafnframt fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021.

Í tillögu til þingsályktunar um sömu fjármálaáætlun kemur fram að verði þessi áform um 730 millj. kr. aukningu í jöfnun dreifikostnaðar að veruleika fari hlutfall jöfnunar, þ.e. samanburður á kostnaði við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli, úr 49% nú, sem er auðvitað of lágt, í 85% á árinu 2021. Stefnt er að því samkvæmt núgildandi plani og fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram að árið 2025 verði hlutfallið komið í 95%. Það frumvarp sem ég er hér að mæla fyrir er því í samræmi við stefnu stjórnvalda um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu eins og hún kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og sem markmið í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.

Með frumvarpinu er lögð til uppfærsla á jöfnunargjaldi raforku til samræmis við verðlagsbreytingar frá 2015, þ.e. að jöfnunargjald raforku hækki um 13%. Við erum ekki að hækka töluna heldur er það verðlagshækkun. Um einfalda lagabreytingu er að ræða þar sem jöfnunargjaldið fer úr því að vera 0,30 kr. á hverja kílóvattstund yfir í 0,34 kr. og úr 0,10 kr. á hverja kílóvattstund vegna skerðanlegrar raforku í 0,11 kr. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að meðaltalshækkun raforkureiknings hins almenna notanda í þéttbýli verði um 0,34% eða 21 kr. á mánuði miðað við hækkun um fjóra aura á kílóvattstund. Raforkukostnaður í dreifbýli lækkar hins vegar um 1,20% hjá Rarik eða 93 kr. á mánuði en 1,39% hjá Orkubúi Vestfjarða eða 109 kr. á mánuði. Þegar bætast við aukin framlög á fjárlögum til jöfnunar dreifikostnaðar, 600 millj. kr., margfaldast áhrifin til lækkunar í dreifbýli. Í greinargerð með frumvarpinu er að finna töflu sem sýnir áhrif frumvarpsins eftir dreifiveitum. Áhrif frumvarpsins á fyrirtæki fara almennt eftir orkuþörf viðkomandi reksturs og sömuleiðis hvort viðkomandi fyrirtæki er í dreifbýli eða þéttbýli.

Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.