151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við tókum það til gagngerrar skoðunar að sameina gjaldskrár og hafa einfaldlega eina en ástæðan fyrir því að við ákváðum að fara ekki þá leið að sinni er ekki að það hafi verið of mikil vinna heldur vegna þess að gallarnir á þeirri leið voru einfaldlega of miklir. Með þeirri leið skapast ekki nægilega réttir hvatar til hagræðingar, gagnsæi minnkar, umsýsla hjá Orkustofnun verður meiri og það verður erfiðara að hafa yfirsýn yfir það hvernig verðið verður til. Ég var einfaldlega þeirrar skoðunar að það væri ekki nógu góð leið.

Þess vegna förum við þessa blönduðu leið núna og eins og ég nefndi er ein leið að sameina dreifiveitur og ná fram aukinni hagræðingu þannig og svo er, að mínu viti, einfaldlega kominn tími til að hugsa þessi kerfi aðeins upp á nýtt. Það hangir kannski aðeins saman við þær breytingar sem eru að verða. Í skoðun er ákveðinn tröppugangur varðandi gjaldskrár vegna þess að viðskiptavinum í orkukerfinu er einfaldlega að fjölga mjög mikið og kerfið okkar og öll nálgun miðar enn of mikið, að mínu mati, að því að við séum annaðhvort með kerskála eða lítil fyrirtæki. Við erum í dag með miklu fjölbreyttari viðskiptavini og fjölbreytnin mun bara aukast. Mjög fáir notendur eru með á milli 5 og 10 MW notkun og eru viðskiptavinir dreifiveitna en ekki beintengdir við flutningskerfi Landsnets, fyrirtækin eru nokkur en þau eru mjög fá. Sum gagnaver eru jafnvel tengd beint við Landsnet gegnum dreifiveitur og borga ekki gjaldið.

Dreifiveitur munu í framhaldi af þessu lækka dreifbýlisgjaldskrár en hækka þéttbýlisgjaldskrár. Það er færsla innan kerfis dreifiveitna sem er þá óháð því sem komið var inn á varðandi Landsnet og það mál, það er í ferli hjá Orkustofnun og ekki á mínu borði á meðan svo er.