151. löggjafarþing — 28. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[20:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Verkfallsrétturinn sem gengin kynslóð barðist fyrir með oddi og egg, svita og tárum, er dýrmætur; réttur sem þurfti að berjast fyrir af harðfylgi og margir þurftu að þola útskúfun og óvild fyrir. Þetta er nánast helgur réttur sem má ekki víkja frá nema í ýtrustu tilvikum og í bráðri neyð. Skömm ríkisstjórnarinnar er mikil í þessu máli, hún hefur mætt deiluaðilum af léttúð og aðgerðaleysi. Ríkisstjórnin hefur áður látið það lönd og leið að ræða við hópa launþega sem sóst hafa eftir betri kjörum, hópa sem annast öryggisgæslu, umönnun og hjúkrun og vernd þegnanna; gefið þeim langt nef, látið reka á reiðanum. Með öryggi og hagsmuni íbúa í dreifðum byggðum í mínu kjördæmi í huga, og landsmanna allra, mun ég ekki hindra framgöngu þessarar lagasetningar.