151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að hlutir sem við almennt köllum góðgerðarstarfsemi séu varla umdeildir, þ.e. þar sem verið er að styrkja einhverja hópa, einhver málefni, fólk sem er t.d. fátækt eða veikt eða eitthvað slíkt, hjálparsveitir og svo mætti lengi telja. En af því að hér er talað um starf sem er til almannaheilla þá bara ítreka ég það sem ég nefndi áðan að skilningur manna á því hvað telst til almannaheilla er mjög ólíkur. Það má velta upp fleiri dæmum, t.d. eru örugglega einhverjir sem telja að það að berjast fyrir algerlega nýrri stjórnarskrá, umturnun stjórnarskrárinnar, væri mjög til almannaheilla og kannski mikilvægast af öllu. Ættu þá slík samtök að njóta þessa stuðnings? Aðallega velti ég því fyrir mér, frú forseti, hvort hætta sé á því að þau málefni sem teljast inn undir hjá kerfinu hverju sinni, í náðinni ef svo má segja, í samræmi við tíðarandann, verði tekin fram yfir önnur. Málefni geta verið álíka pólitísk en er hætta á því með þessu að kerfið ákveði að verðlauna þau málefni sem falla að tíðaranda samtímans en útiloka önnur?