151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg ljóst að tekið var að halla undan fæti á síðari hluta ársins 2018 og hinn margumtalaði viðnámsþróttur ríkisins þegar kemur að erfiðum efnahagsaðstæðum, eins og við erum í núna, hefði getað verið meiri og betri hefði ríkisstjórnin haldið skynsamlega á ríkisfjármálunum þegar menn sáu að farið var að halla undan fæti. Engu að síður var boginn spenntur til hins ýtrasta í útgjöldunum. Þar var ríkisstjórnin einfaldlega í ákveðinni afneitun um stöðuna í efnahagsmálum á þeim tíma. Það skýrir síðan þetta mikla ofmat á tekjum. Síðan koma til fjáraukalög til að bjarga því sem bjargað varð.

Ég er ekki með neina spurningu til hv. þingmanns en við erum ekki sammála hvað þetta varðar, (Forseti hringir.) hvernig var tekið á þessum málum. Mér finnst bara að niðurstaðan sem við sjáum í þessum í ríkisreikningi sýni ótvírætt að það (Forseti hringir.) hefði átt að beita miklu meiri varfærni í ríkisfjármálunum á þessum tíma en gert var.