151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er auðvitað stóra verkefnið ávallt og ekki síst fram undan; ég held að það sé einmitt málið varðandi 2019. Þá ætla ég að svara spurningunni um hvort við höfum ekki verið komin í þrönga stöðu 2019 og er vísað í tölur ríkisreiknings. Það er í raun og veru hlutdeildaraðferð um uppgjör ríkisfyrirtækja sem útskýrir þann hagnað, annars er halli eins og hv. þingmaður kom inn á.

Hvort við séum komin á ystu nöf ætla ég ekki að segja til um. Varfærni er eitt af grunngildunum, sjálfbærni er það líka. Ég ætla að horfa til þessara tveggja gilda um leið og við tölum gjarnan um stöðugleika sem er eitt af grunngildunum. Það eru bara það stór málefnasvið í ríkisbókhaldinu sem vaxa með þeim hætti á undanförnum árum, og blasir við að þau muni gera það inn í framtíðina, að það er í miklu stærra samhengi en þegar við erum að reyna að lenda jafnvægi í fjárlögum á hverju ári með tekjur og gjöld. Þetta er það sem við þurfum horfa til og þá vísa ég til þess að heilbrigðiskerfið og tvö ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið, eru með helminginn af 1.000 milljarða umfangi. Þjóðin er að eldast og við stöndum frammi fyrir mjög krefjandi samfélagslegum verkefnum. Þarna þurfum við að horfa á lýðheilsumál og fleira í þeim dúr. Í framhaldinu (Forseti hringir.) af þessari erfiðu kreppu sem við erum að fara í gegnum mun (Forseti hringir.) síðan verða mjög krefjandi fyrir stjórnvöld í framtíðinni að takast á við að stöðva skuldasöfnunina og snúa þessu við.