151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur mjög athyglisverða ábendingu. Ég vil líka þakka fyrir það að hv. þingmaður gaf mér vísbendingu um hvað hún ætlaði að koma inn á í ræðu sinni. Ég hefði ekki getað svarað þessu beint úr kolli en mér gafst aðeins ráðrúm til að skoða þessa athyglisverðu ábendingu í samræmi við 56. gr., eins og hv. þingmaður kom inn á, þ.e. í þessu ágætisgagni sem ég átti samræðu um við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, endurskoðunarskýrslu ríkisendurskoðanda sem er meiri að umfangi en hefðbundin endurskoðunarbréf sem fylgja endurskoðun smærri eininga. Það er komið inn á þetta á bls. 9 í endurskoðunarskýrslunni.

Nú skiptist ríkisreikningur í tvo hluta, annars vegar yfirlit reikninga og mjög umfangsmiklar skýringar og hins vegar seinni hluta þar sem eru séryfirlit. Eins og ég skil þessa umfjöllun í endurskoðunarskýrslunni segir að það sé ekki samræmi, samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál um talnagreiningu, við það sem hægt er að sýna fram á í séryfirlitum í seinni hluta. Jafnframt er á það bent að upplýsingar vanti í þeim sex stöðlum, sem við komum aðeins inn á í nefndaráliti, sem hefur verið frestað í reikningsskilastöðlunum. Það er þá næsta verkefni sem ég fer í, að grafast fyrir um það (Forseti hringir.) hvaða reikningsskilastaðlar þetta eru nákvæmlega og hvaða upplýsingar þarf til (Forseti hringir.) og jafnvel lagabreytingar til að (Forseti hringir.) upplýsingarnar liggja fyrir í fyrri hluta. Ég get kannski útskýrt þetta eitthvað betur (Forseti hringir.) í seinna andsvari.