151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með því að tengja þau svæði sem nú þegar eru friðlýst inni á hálendinu og bæta þar fyrir utan við svæðum innan miðhálendislínunnar, eins og hér er gert ráð fyrir, á þjóðlendum, náum við miklu betur heildstætt utan um vernd þessara svæða. Við náum betur utan um þá starfsemi sem fer fram á hálendinu. Við getum með heildstæðari hætti unnið gegn utanvegaakstri eða verndað einstæða náttúru sem þarna er að finna, sinnt fræðslu um svæðið í heild sinni og haldið utan um þá uppbyggingu sem getur orðið á svæðinu undir formerkjum sjálfbærrar þróunar þar sem sjálfbær nýting er leiðarljós. Inni á svæðinu er alveg ómetanleg náttúra, ómetanlegt landslag, samansafn af náttúrusmíð sem í heild sinni gerir það sennilega eitt merkilegasta svæði á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Mér finnst við bera ábyrgð á því, (Forseti hringir.) þar með talið þegar við horfum til þess að þarna eru stór óbyggð víðerni, (Forseti hringir.) að halda utan um þessi svæði með þjóðgarði.