151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau jaðarsvæði sem hér er vitnað til, sem eiga að hýsa svæði þar sem orkunýting fer fram, þ.e. svæði sem þegar hefur verið virkjað á, og ef það skyldi gerast að það kæmu til fleiri svæði sem yrði virkjað á, þau eru teiknuð utan um þessi svæði. Hins vegar eru þau svæði sem hv. þingmaður nefnir hérna í biðflokki rammaáætlunar í þeim tillögum sem nú liggja fyrir þinginu og við vitum ekki hver afdrif þeirra verða. Það er sérstakt ákvæði í hálendisþjóðgarðsfrumvarpinu sem gerir grein fyrir því hvernig þessu samspili er háttað á milli þjóðgarðsins og rammaáætlunar og er of stuttur tími sem ég hef hér til að rekja það. En þar er í rauninni verið að reyna að klára umræðu um þau mögulegu virkjunarsvæði sem þarna gætu orðið á eins skömmum tíma og hægt er þannig að (Forseti hringir.) við mætum þeim ólíku sjónarmiðum sem vissulega eru uppi og hafa lengi verið um nýtingu inni á hálendinu.