151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands er einmitt að vera tilbúin. Það er mergurinn málsins. Með því að vera með þjóðgarð á svæðinu erum við tilbúin til að mæta öllum þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að nýtingu hálendisins. Ég tel að það sé rétta leiðin að fara í þá vegferð. Þannig getum við líka komið inn á hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi sem hefur með öryggi þeirra sem um hálendið fara að gera. Öryggi eykst að sjálfsögðu þegar við erum komin með þjóðgarð þar sem við erum með fólk í vinnu við landvörslu og erum þá í rauninni með miklu fleira fólk á þessu svæði til að sinna slíkum málum. Þannig að ég segi já, við getum ekki öðruvísi gert okkur tilbúin til þess að taka á móti þessum tækifærum nema með því að stofna þjóðgarðinn.