151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:09]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég er upp með mér að hann skuli hafa komið í andsvar við mig til að ræða þetta mál. Ég er algerlega sammála ráðherra um að þetta ristir djúpt í huga okkar allra auðvitað og ekki síst fólksins í sveitinni og þeirra sem búa þarna næst. Það er einmitt mergur málsins, fólkið sem þar býr, fólkið sem það tók við af og það tók við af öðrum og hefur verið að rækta þetta land, gefa því allt sem það á án þess að hafa nokkrum sinnum spurt um hver launin séu. Þetta hefur allt snúist um landið, nýtingu þess og nytjar sem fólk hefur notið í árhundruð. Þannig að við erum algerlega sammála þarna, ég og ráðherrann, og fólkið í sveitinni er líka algjörlega sammála þessu. Þetta mál snýst mjög mikið um tilfinningar, gríðarlega mikið. Þess vegna, virðulegur forseti, er svo áríðandi, ekki bara fyrir þingið heldur fyrir ráðherrann, að þetta mál sé afgreitt í sátt sem einhver reisn er yfir, að fólkið í landinu, í sveitunum, geti staðið upp og sagt að það sé tiltölulega sátt við þá niðurstöðu sem þingið ætlar að ná í þessu.

Vissulega hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu en það er enn gjá á milli aðila. Það er gjá á milli sveitarstjórnarmanna og ráðherrans. Það er gjá á milli okkar og þeirra sem telja að það sé of langt gengið á rétt sveitarfélaganna eins og ég drap lítillega á áðan. Það þarf í meðförum þingsins að eyða algjörlega þeirri óvissu.