151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Þetta er frumvarp sem að mínu áliti þarfnast mikillar yfirlegu enda er viðfangsefnið í eðli sínu flókið og margþætt og sjónarmið fjölbreytt. Umsjón, varsla og nýting hálendisins er í eðli sínu vandasamt verkefni og mikilvægt að allir sem að því koma vandi sig, leikreglur séu skýrar og sanngjarnar. Að hálendinu liggja 23 sveitarfélög og þar fer fram ýmiss konar starfsemi sem sum á sér mjög langa sögu meðan annarri starfsemi er verið að finna farveg núna. Á þessu svæði á sér líka stað verulegur hluti af orkuöflun þjóðarinnar. Svæðið sem um ræðir er allt þjóðlenda og því í sameiginlegri eign þjóðarinnar en tilheyrir sveitarfélögum eins og allt annað land á Íslandi.

Á miðhálendinu liggja fyrir mörg aðkallandi verkefni. Vaxandi aðsókn stækkandi þjóðar auk umferðar ferðamanna kallar á meiri samhæfingu og samvinnu um nýtingu og vernd hálendisins og meira utanumhald en meðan nýtingin og umferðin var einsleitari. Ég hef litið þannig á að fyrirbærið þjóðgarður, með mismunandi verndarflokkum, gæti verið gagnlegt tæki og vettvangur fyrir þessa nauðsynlegu samhæfingu og samvinnu. Ég held líka að þjóðgarður á miðhálendinu geti skapað ýmis tækifæri í dreifðum byggðum til að skapa störf á vegum einkaaðila og til að dreifa opinberum störfum. Þjóðgarður geti þannig, ef vel tekst til, skapað tækifæri fyrir fólk sem vill búa í strjálbýli til að velja sér búsetu og skapa fólki sem þar býr viðbótarmöguleika til atvinnusköpunar og styrkt samfélög. Þar fyrir utan eru svo auðvitað verndarsjónarmiðin sem ég held að allir íbúar landsins telji skipta máli þó að við séum ekki endilega sammála um aðferðafræðina við verndun.

Þingflokkur Framsóknarflokksins leggur áherslu á samvinnu um vernd og nýtingu hálendisins eins og annars lands í sameign þjóðarinnar. Hinu er svo ekki að leyna að innan Framsóknarflokksins, eins og víða í þjóðfélaginu, eru mjög skiptar skoðanir um þjóðgarð á miðhálendinu og hvort það sé rétta leiðin til að ná utan um þær áskoranir sem þar blasa við.

Mínar stærstu efasemdir um frumvarpið eins og það liggur fyrir núna snúast einkum um það í hvaða röð sé skynsamlegt að vinna verkefnin sem við blasa, í hvaða skrefum við eigum að stækka núverandi þjóðgarð á miðhálendinu, sem sagt víkka Vatnajökulsþjóðgarð út, og hversu hratt sé raunhæft að vinna verkin, hverju þurfi að ljúka áður en stærri þjóðgarður getur orðið til og hversu langan tíma þau verkefni taki. Verkefni Alþingis er að vega og meta hvort tillagan eins og hún liggur fyrir geti náð utan um áskoranirnar og hvort hún geti komið á því samstarfi sem er nauðsynlegt til framtíðar um nýtingu og vernd á miðhálendinu. Ég held að einhver sem talaði hér á undan mér hafi ratað á að tala um þátttöku. Það þurfa allir sem að málinu koma að vera virkir þátttakendur. Það þarf að takast vel til ef við notum þetta tæki, þetta fyrirbæri þjóðgarð, því að ef ekki er vandað til verka í upphafi er verr af stað farið en heima setið.

Það hefur mikil vinna farið í þetta verkefni á kjörtímabilinu og raunar hafa margir velt því fyrir sér í áratugi. Hópurinn sem kemur að umræðunni nú hefur farið stækkandi síðustu ár og mánuði og við verðum að virða það að fólk hefur haft mislangan tíma til að átta sig á hugmyndinni um þjóðgarð og verkefnunum sem fyrir liggja á hálendinu. Ég sjálf hef varið miklum tíma á síðustu mánuðum í að skoða þær áskoranir sem við blasa á hálendinu. Þeim tíma er öllum vel varið því að þarna eru verkefni sem þarf að leysa óháð framgangi frumvarps um þjóðgarð, ýmis verkefni sem Alþingi ber að koma í skýran farveg. Verkefnið er það umfangsmikið og margþætt að það þarf að ætla því góðan tíma í umfjöllun, bæði á Alþingi og í samfélaginu öllu.

Ég átti sæti í þverpólitískri nefnd umhverfis- og auðlindaráðherra um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Nefndin skilaði skýrslu sem teiknaði upp mynd af því hvernig þjóðgarður gæti litið út og dró fram atriði sem þyrfti að hyggja að ef slíkur þjóðgarður ætti að verða að veruleika. Þátttaka í þeirri vinnu var mikið lærdómsferli og upplýsandi. Nefndin dró upp mynd af hálendisþjóðgarði sem víðáttumiklum þjóðgarði sem stofnaður yrði með sérlögum og byggi á landsvæði í sameign þjóðarinnar, þ.e. þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendisins. Hugmyndir nefndarinnar gengu út frá víðtæku samráði og dreifðri stjórnun með beinni aðkomu sveitarfélaga og hagaðila. Ég held kannski að í þessa skýrslu hafi svolítið vantað orðið „þátttaka“. Það er einn meginútgangspunktur nefndarinnar að þjóðgarðurinn efli og styðji við sjálfbæra hefðbundna nýtingu hálendisins um leið og hann grundvallist á sáttmála um að standa vörð um minjar í náttúrufari og menningu sem einkenna miðhálendið. Þá lagði nefndin áherslu á að við undirbúning frumvarps yrði gerð ítarlegri greining á fjármagnsþörf þjóðgarðsins við stofnun hans. Einnig taldi nefndin mikilvægt að í útfærslu þjóðgarðsins í lagafrumvarpi yrði hugað að því að stjórnkerfi þjóðgarðsins gæti hafið þá vinnu og eftir atvikum lokið við þær stefnumarkandi áætlanir sem eru nauðsynlegar áður en rekstur hefst, eins og stjórnunar- og verndaráætlun og atvinnustefnu. Þá taldi nefndin mikilvægt að við stofnun hálendisþjóðgarðs yrði strax í byrjun hugað að rannsóknum og gagnaöflun um vöktun á umferð og náttúrulegri framvindu til að raunhæft yrði að meta árangur af stofnun og rekstri.

Nú þegar frumvarp um málið er komið til Alþingis er það hlutverk þingsins að meta hvort tillagan eins og hún liggur fyrir nái utan um þær áskoranir sem eru dregnar fram í skýrslunni og þær áskoranir sem hafa birst í umsagnarferli síðan og hvort hún er líkleg til að ná utan um það samstarf sem þarf að koma til, til að sátt náist um vernd og nýtingu.

Eins og fram hefur komið í umræðunni þá setti þingflokkur Framsóknarflokksins fram ákveðna fyrirvara við afgreiðslu málsins til þingsins. Mun ég hafa þá með mér inn í vinnslu málsins í umhverfis- og samgöngunefnd. Þeir fyrirvarar tengjast allir þeim áskorunum sem dregnar eru fram í skýrslu þverpólitísku nefndarinnar. Ég ætla að renna örstutt yfir þessa fyrirvara samandregna:

1. Afmörkun ytri marka og mismunandi verndarflokka fari fram í samstarfi við sveitarfélög og með samþykki þeirra.

2. Verkaskipting og hlutverk sveitarfélaga við skipulagsvinnu og umdæmisráða við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar verði skýr.

3. Sett verði fram áætlun um fjárþörf og uppbyggingu til lengri tíma með raunhæfri áætlun um tímann sem þarf til þess að fara í skipulagsvinnu, tímann sem fer í að byggja upp stjórnkerfi, tímann sem fer í vinnu að stefnumarkandi áætlunum eins og stjórnunar- og verndaráætlun og atvinnustefnu. Þetta höfum við allt séð taka býsna langan tíma í öðrum þjóðgörðum.

4. Ábyrgð á fjármögnun og viðhaldi samgöngumannvirkja á hálendinu verði skýrð, bæði að hálendinu, innan hálendisins og leiðir sem liggja í gegnum það. Svo þarf auðvitað að tryggja aðgengi fólks að miðhálendinu og jafnræði milli ferðamáta.

5. Umgjörð um hefðbundnar nytjar og þróun þeirra sé skýr.

6. Gert ráð fyrir orkuvinnslu og flutningi raforku og samspili orkunýtingar við afmörkun orkuvinnslusvæða og flutningsleiða raforku.

7. Samspil við aðra löggjöf um vernd og nýtingu verði skoðað í meðförum Alþingis. Þetta á t.d. við um reglugerð um sjálfbæra beit og frumvarp um vernd og veiðar sem er á leið til þingsins.

8. Samhliða vinnu Alþingis verði sköpuð umgjörð sem tryggi áframhald fjölbreyttra verkefna sem nú eru unnin af ýmsum aðilum á hálendinu. Það er sjálfboðavinnan sem fer fram nú þegar. Það eru fjölbreytt verkefni sem snúa að öryggismálum, ýmiss konar þjónustu, landumsjón, vegaumsjón, endurheimt og verndarverkefni. Þetta á líka við um verkefni sem nú er sinnt í atvinnuskyni, ekki bara sjálfboðaverkefni. — Þetta er, held ég, eitt af því mikilvæga til að tryggja þátttöku sem flestra í því að búa til umgjörð sem skapar sátt.

9. Hlutverk skýrð varðandi ábyrgð mismunandi stofnana ríkisins á öryggismálum á hálendinu.

10. Síðast en ekki síst þarf að vera tryggt að samvinna heimamanna og sveitarfélaga og ríkisins um miðhálendið verði góð. Annars verður miðhálendið ekki sjálfbært svæði. — Það er lykilatriði.

Um sumt af þessu er þokkalega búið í frumvarpinu nú þegar, annað er óljóst og eitthvað vantar alveg. Einhver þessara skilyrða gera kröfu um vinnu sem þarf að fara í samhliða vinnu Alþingis. Annað er eitthvað sem þingið fer yfir.

Mér gefst ekki tími til að fara nánar ofan í mörg af þessum atriðum en ætla aðeins að koma betur inn á vegamálin og afmörkun útlína þjóðgarðsins. Þjóðvegir, aðrir vegir og vegslóðar á hálendinu eru út af fyrir sig risastórt viðfangsefni. Eiga þeir allir að vera opnir og hver ber ábyrgð á þeim? Sá hluti þjóðvegakerfisins sem liggur innan miðhálendisins telur 54 vegi. Veghald þeirra er á ábyrgð Vegagerðarinnar. Um miðhálendið liggja fjórir stofnvegir og auk þess net landsvega. Svo eru einstaka vegir sem falla í aðra vegflokka. Þá liggja víða og hér og þar og hingað og þangað vegir og slóðar um miðhálendið sem ekki tilheyra þjóðvegakerfinu. Það er unnið að skráningu þessara vega. Flestir vegir á miðhálendinu, hvort sem þeir tilheyra þjóðvegakerfinu eða ekki, eru einfaldir malarvegir eða vegslóðar, sumir torfærir, með óbrúuðum ám og sumir í mjög viðkvæmu landi.

Það hefur lengi ríkt óvissa um hvernig standa skuli að ákvörðunum um hvaða ökuleiðir, sem hafa myndast í áranna rás, skuli vera skilgreindar sem vegir sem heimilt er að aka. Það þarf að fara í stefnumarkandi ákvarðanir um þessa vegi. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að þjóðgarðurinn fjármagni vegabætur eða viðhaldi þeim öllum heldur verður að gera ráð fyrir að sveitarfélög eða nytjarétthafar viðhaldi slóðum. Eða er hægt að gera ráð fyrir að þessir aðilar, sveitarfélög og nytjarétthafar, viðhaldi slóðum fyrir umferð sem vegirnir voru ekkert byggðir fyrir? Ég tel mjög mikilvægt að við ráðstöfun fjármagns sem fer í viðhald á þjóðvegakerfinu ríki gagnsæi og það verði hluti af samgönguáætlun. Það þarf að fara fram umræða um hver á að fara með veghald veganna sem sveitarfélögin og nytjarétthafarnir byggðu.

Svo rétt í lokin aðeins meira um afmörkunina. Þrátt fyrir viðmið um að lagt sé upp með að afmörkun þjóðgarðs á miðhálendinu miðist við þjóðlendur innan miðhálendislínu hef ég alltaf litið þannig á það sem ytri mörk þess svæðis sem er til umfjöllunar. Útfærsluna þyrfti að vinna í samvinnu við einstök sveitarfélög í tengslum við skipulagsgerð og afmörkun mismunandi flokka verndarsvæða og hvernig línur verða dregnar í kringum röskuð svæði eins og orkuvinnslusvæði. Það má segja að með þeim hætti hafi Vatnajökulsþjóðgarður einmitt smátt og smátt byggst upp með þátttöku sveitarfélaganna. Sem dæmi er ekki ástæða til að hrófla við ytri mörkum núverandi Vatnajökulsþjóðgarðs enda í öllum tilfellum búið að leggja vinnu í ákvörðun um núverandi mörk. Þetta kom t.d. skýrt fram í samráðsvinnu þverpólitísku nefndarinnar. Í mörgum tilfellum er heldur ekki ástæða til þess að teygja útlínur eftir krókóttum línum heldur elta frekar landfræðilegar eða náttúrufarslegar heildir. Í aðdraganda þess að málið var lagt fram á Alþingi beindust svo sjónir að jaðar- eða áhrifasvæðum þjóðgarðsins. Það hafði lítið verið í umræðunni áður. Þingflokkur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að jaðarsvæðin verði skilgreind inn á við, frá ytri mörkum garðsins þannig að þau hafi ekki áhrif á nýtingaráform utan marka hans. Sú vinna þarf líka að vera hluti af skipulagsvinnu því að stærð áhrifasvæða er jú mjög háð landslagi á hverju svæði á hverjum stað.

En að lokum: Samvinna, samvinna, samvinna og þátttaka, þátttaka, þátttaka.