151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður fór yfir markmið með hálendisþjóðgarði og rakti skoðun sína á ýmsum af þeim og rakti það í andsvari við hv. þm. Smára McCarthy rétt áðan að hann teldi að sjálfsögðu þörf á því að vinna að rannsóknum. En varðandi fjórða markmiðið, að stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar, þá rak ég mig á það í ræðu hv. þingmanns að þar var fullyrt að þetta væri ekkert vandamál núna. En hv. þingmaður, það er vandamál. Það eru ýmsar náttúruperlur sem ýmsir aðilar, samtök ferðafólks o.fl., hafa í raun haldið ósnortnum, eða lítið hefur verið farið á þá staði af því að þeir eru mjög viðkvæmir og geysilega fallegir. En á tímum internetsins er auðvelt að finna þá. Þeir eru einfaldlega merktir með GPS-hnitum og þeir sem hafa ekki lært að umgangast íslenska náttúru almennt hafa leitað á þessa staði án þess að virða þá viðkvæmu náttúru sem þar er. Mér heyrist á málflutningi hv. þingmanns um þessi markmið að hann sé almennt sammála þeim þó að hann kalli þau veik eða eitthvað því um líkt. Mér finnst þetta mjög nauðsynlegt markmið og alls ekkert veikt, þetta er algert grundvallaratriði. Og miðað við að þetta sé vandamál þá þarf augljóslega að laga það, ekki satt?