151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar ég tala um að markmiðsgreinarnar séu veikar þá er ég að tala um það í því sambandi að vera undirbygging ákvörðunar um stofnun hálendisþjóðgarðs. Markmiðin eru ekki veik sem slík, ekki hvert og eitt fyrir sig. En þegar farið er í gegnum tíu markmið og ástæða er til að segja að sjö af þeim, hið minnsta, kalli ekki á að sérstök stofnun sé sett á fót til að bregðast við þeim áhersluatriðum sem þar eru lögð fram, þá þykir mér það býsna hátt hlutfall.

En að fjórðu markmiðsgreininni, sem hv. þingmaður kom inn á, þar sem segir, með leyfi forseta: „Stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar.“ Þetta er auðvitað göfugt markmið og þess vegna erum við til að mynda með lög um náttúruvernd svo dæmi sé tekið, það er lagarammi um þessa þætti, um umgengni um viðkvæma staði og þar fram eftir götunum. Það er kannski miklu frekar á fyrri stigum að það hafi vantað áherslurnar hvað það varðar að verja og vernda og upplýsa og kynna á þessum svæðum. Og af því að hæstv. ráðherra kom inn á utanvegaakstur og sagði að það væri auðveldara að ná utan um hann og verjast honum, þá er fjallað um hann í 31. gr. laga um náttúruvernd. Regluramminn er því til staðar víðs vegar í því lagaverki sem við búum við og kannski sérstaklega í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem eru þó ekki eldri en það. Það eru ekkert ævaforn lög. Ég ítreka það sem ég sagði þegar ég fór yfir markmiðskafla frumvarpsins að flestum þessum þáttum er annaðhvort ágætlega fyrir komið í dag eða betur fyrir komið með öðrum hætti en að setja á fót sérstaka stofnun þar um.