151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, þessi mál eru merkileg og nauðsynlegt að huga að þeim. Utanvegaakstur hefur orðið eilítið alvarlegri á undanförnum árum, bara ef maður skoðar fréttir tengdar honum og vissulega væri heppilegt að grípa inn í það fyrr í ferlinu. En með auknum fjölda ferðamanna, þeim gríðarlega fjölda sem var orðinn, þá virtust þessi verkefni einfaldlega vera orðin fólki ofviða, það náði ekki að sinna því sem sinna þurfti. Kannski er það af því að umsjón með þessu er tvist og bast, hún er hér og þar þannig að samskiptin verða erfiðari. Þegar umfangið eykst og álagið eykst úti um allt væri a.m.k. ekki gáfulegt að auka samskiptin á einhvern hátt, auka skilvirknina gagnvart þeim fjölbreyttu vandamálum sem verið er að tala um í þessu frumvarpi? Hvort sem það heitir nauðsynlega hálendisþjóðgarður eða eitthvað svoleiðis er vandamálið augljóslega til staðar sem þarf að tækla varðandi aðgengi að mjög viðkvæmum náttúruperlum, utanvegaakstur og ýmislegt annað sem er fjallað um í markmiðunum. Þó að hv. þingmaður sé á móti hálendisþjóðgarði eða stofnun til þess að gera þetta þá er líka vandamál með smáa aðila sem eru á víð og dreif að reyna að vinna að sömu markmiðum. Skilvirknin hlýtur að vega eitthvað í þessum málflutningi hv. þingmanns.