151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði að koma inn á samráð við vinnslu þessa máls vegna þess að hv. þingmaður lagði áherslu á það að hæstv. umhverfisráðherra hefði viðhaft ágætissamráð, hann hefði ferðast um og rætt við aðila. En það stangast svolítið á við það sem komið hefur fram í umsögnum um þetta mál. Sveitarfélög, einkum á Suðurlandi, hafa sagt að samráðið hafi engan veginn verið nægilegt. Nú hefur hæstv. ráðherra sagt að hann hafi bætt þar úr. Það vill svo til að ég tók upp símann og hringdi í einn sveitarstjóra á Suðurlandi og spurði hvort hann hefði orðið var við að bætt hefði verið úr þessum ágöllum í fyrri meðferð málsins. Viðkomandi sveitarstjóri kannaðist ekki við það. Það stangast svolítið á við það sem hæstv. ráðherra hefur sagt. Þetta lýsir því að einhver pottur sé brotinn í undirbúningi þessa máls sem verður að taka á.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er að nú hafa verið gerðar rannsóknir, m.a. bandarískar rannsóknir, um samstarf þegar kemur að þjóðgörðum. Þar er lögð mikil áhersla á að rætt sé við heimamenn á öllum stigum málsins. Það sem ég er að reyna að koma að, hv. þingmaður, er að ég tel að sporin hræði. Er ekki við því að búast að þegar búið er að stofna þjóðgarð fari (Forseti hringir.) hlutirnir þannig að samráð verði nánast ekkert vegna þess að lítið samráð hefur verið í því ferli að stofna þjóðgarðinn? (Forseti hringir.) Það væri gott ef hv. þingmaður gæti komið aðeins betur inn á þetta samráð sem hann segir að hafi verið gott, en sveitarfélögin kannast ekki við það.