151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ágætisandsvar. Ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti þjóðgörðum. Hv. þingmaður nefndi hér áðan sérstaklega Snæfellsnesþjóðgarð og ég hef ferðast um hann. Margt er til fyrirmyndar þar og gaman að koma þangað. En það sem ég hef lagt áherslu á í málflutningi mínum er að ég tel einfaldlega að stofnun hálendisþjóðgarðs sé ekki tímabær. Við eigum bara að sinna því sem við höfum nú þegar á okkar könnu, gera það vel og betrumbæta það sem þarf að laga. Það kemur alveg greinilega fram í þessari skýrslu, sem er ekki nema ársgömul, að í Vatnajökulsþjóðgarði er víða pottur brotinn, m.a. í samskiptum við heimamenn. Fullkomin sátt þarf að ríkja meðal heimamanna um þessi mál. Það er stór liður í því að vel takist til. Ég verð að segja að við höfum einfaldlega heilmikið verk að vinna í því sem þegar hefur verið friðlýst og við eigum að vinna að því að bæta þá hluti sem þar eru.

Ég vil nefna sérstaklega, hv. þingmaður, fjármálin. Nú er það alveg á tæru að ríkissjóður verður ekki eins aflögufær um fjárheimildir á næstu árum vegna hinnar gríðarlegu skuldasöfnunar sem hann hefur þurft að fara í vegna veirufaraldursins. Fjárheimildir verða takmarkaðar í þjóðgarða almennt og margt fleira á vegum ríkisins.

Eins og ég segi, hv. þingmaður: Við eigum að gera það vel sem við höfum þegar gert. Ég tel ekki tímabært að eyða kröftunum í að stofna enn einn þjóðgarðinn. (Forseti hringir.) Ég get ekki séð að hálendið sé (Forseti hringir.) í sérstakri hættu. Hefur þetta ekki bara gengið ágætlega eins og við höfum haft það og (Forseti hringir.) þeir fengið að njóta sem hafa farið um hálendið og ganga yfir höfuð vel um það?