151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sem var ágæt, sérstaklega síðustu orð ræðunnar, þau voru sérlega góð, þar sem hann vitnaði í Jón Kalman Stefánsson, góðan vin minn. Það var ánægjulegt og ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Ég vildi spyrja hv. þingmann og fara aðeins yfir það sem hann sagði í ræðu sinni, en mér fannst vera ákveðin þversögn í því sem hv. þingmaður sagði í þessari ágætu ræðu. Hann ræddi um að varðveita þessa upplifun. Ég er alveg sammála því að það er mikil upplifun að koma á hálendið. Hann talaði um þögnina og kyrrðina og setti þetta allt mjög vel fram og á ljóðrænan hátt eins og hans er von og vísa og var ánægjulegt að hlusta á það. En á sama tíma talaði hv. þingmaður um að við værum að opna hálendið og við værum að koma böndum á ferðamennsku og við værum að fjölga ferðamönnum inn á hálendið með þessum þjóðgarði. Er það ekki svolítil þversögn, hv. þingmaður? Er þessi upplifun, þessi kyrrð, ekki komin í ákveðna hættu þegar við opnum þetta svona, eins og hv. þingmaður lagði áherslu á, og um leið fjölga ferðamönnum? Það fannst mér vera svolítil þversögn í ræðu hv. þingmanns og væri gaman að fá útskýringu hans á því. Svo er spurningin: Erum við að opna eitthvað sem er lokað? Er ekki hálendið opið?