151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:53]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, við erum alltaf í þversögninni miðri, líf okkar er allt ein þversögn og ekki síst hvernig við högum því og skipuleggjum aðgang að svona svæði. Hálendið er opið en það er misjafnlega aðgengilegt. Við eigum ekki öll svona græjur sem duga okkur til að komast þangað eða aðgang að slíku. Eins og ég sé þetta fyrir mér þá er það einmitt hið vandasama og hið mikla verk sem bíður okkar allra og bíður þjóðarinnar að koma málum svo fyrir þarna uppi á hálendinu að það sé hægt — og það er náttúrlega lýðræðislegur réttur okkar allra — að fara upp á hálendið og njóta þess sem það hefur upp á að bjóða, en að umferðinni verði þannig fyrir komið, verði þannig stýrt að það takist að varðveita þessa ró og þessa tign og heiðríkju. Ég held að við verðum að skipuleggja það hvernig slíkri umferð er háttað. Það sé ekki hægt að það hafi bara sinn gang vegna þess að umferðin á eftir að aukast. Það munu koma nýjar græjur sem gera fólki auðveldara um vik að ferðast upp á hálendið og það koma nýir og nýir hópar og það koma nýir og nýir ferðaaðilar sem bjóða upp á ferðir. Og þá verður að vera — og ég bið bara forláts á að nota svo ljótt orð: Það verður að vera einhvers konar miðstýring. Það verður að vera einhver stýring á þessari umferð. Það má ekki verða eitthvert kraðak. Það viljum við ekki. Við viljum ekki sjá troðning og kraðak í þessum helgidómi og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um það.