151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hverju ég á að svara hérna. Var hv. þingmaður að stinga upp á því að við færum að nota úlfalda til að fara upp á hálendið hér á Íslandi? Ég veit að þingmenn Miðflokksins stefna leynt og ljóst að því að hér verði miklar loftslagsbreytingar og hér verði heitara og heitara, en þó held ég að það sé nokkuð í land að við náum þeim fararskjóta. Við þurfum aðra fararskjóta til að komast á hálendið og umferðin upp á hálendið á eftir að aukast og ferðamenn eiga eftir að koma hingað aftur og það verða skipulagðar ferðir þeirra. Þá er mikilvægt að til staðar sé rammi sem við getum kallað þjóðgarð, mér finnst þjóðgarður vera fallegt orð. Þar sé höfð að leiðarljósi fagmennska við að skipuleggja þessa ferðamennsku og séð til þess að fjármagn sé til staðar og þar sé uppbygging sem hafi það að leiðarljósi að vernda þessa viðkvæmu náttúru. Þetta er aðalatriði málsins í mínum huga. Við megum ekki missa sjónar á því í einhverju svona þrasi, sem við Íslendingar höfum svo mikið yndi af og erum nokkuð góð í því stundum. Við megum ekki missa okkur alveg í einhverju þrasi um það sem er kannski leitt áfram af aðilum sem telja sig vera að missa einhvern spón úr aski sínum, sem oftast er á misskilningi byggt.