151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:22]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir þessar spurningar. Þetta var nú kannski svolítið beinskeyttara hjá honum í seinni spurningunni. Hann talar um að ég hafi sýnt takmarkalausa íhaldssemi. Það var einmitt það sem ég gerði ekki. Ég sagði: Þetta er varkár framvinda. Ég talaði um að við ættum að stækka núverandi þjóðgarða, aðallega þá Vatnajökulsþjóðgarð, láta tímann vinna með okkur og afla okkur reynslu í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu, í samvinnu alla þá aðila sem koma að svæðinu, ferðafélög, ferðaþjónustuaðila, landeigendur, bændur, upprekstraraðila og hina og þessa. Þarna hafa verið árekstrar í núverandi kerfi og er það þó miklu minni þjóðgarður og allt annað landsvæði en hér um ræðir.

Þegar ég tala um reynslu þá er ég auðvitað ekki að tala um að við séum óhæf sem þjóð, eins og hv. þingmaður orðaði það, það eru hans orð. Ég er alls ekki að tala um það. Ég er að tala um að afla okkur reynslu, láta tímann vinna með okkur. Sá sem ekki getur náð tökum á því að hjóla á reiðhjóli er ekki settur sem ökumaður á bíl. Það er bara ekki þannig. Þetta á einhverja ákveðna framvindu og það er það sem ég er að tala um. Við höfum gert margt stórkostlegt sem þjóð og ég er í engum vafa um að við getum staðið okkur miklu betur í þessum efnum, þ.e. verndun landsins. Við erum væntanlega öll sammála um að við eigum að vernda landið. Við erum öll hlynnt náttúruvernd. En við þurfum að læra af reynslunni, við þurfum að gefa okkur tíma til þess líka, við eigum ekki að ana svona áfram, eins og mér sýnist þetta mál vera gott dæmi um.