151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég hef beðið eftir þessu máli í mörg ár og ég verð að byrja á því að viðurkenna að ég hefði gjarnan viljað geta stutt það einarðlega þegar það kæmi loksins fram. Ég hefði auðvitað viljað að það kæmi fram fyrr. Ég er mjög hlynntur hugmyndinni um hálendisþjóðgarð en mér finnst margt að þessu frumvarpi. Ég vona bara að við berum gæfu til að laga það sem er að því vegna þess að það er fullkomlega mögulegt.

Ég ætla að taka á nokkrum atriðum. Mig langar svolítið til að setja þetta í samhengi fyrst. Nú hef ég um nokkra hríð verið mjög hrifinn af hugmyndum vistfræðingsins E.O. Wilsons sem hefur talað mikið fyrir hugmynd um svokallaða hálfa jörð, þ.e. að 50% af yfirborði jarðar verði tekið frá fyrir náttúruna, að náttúran sjálf fái að njóta vafans, a.m.k. helmingur hennar. Ekki er þar með sagt að ekki skuli stunda náttúruvernd á hinum helmingnum en þessi helmingur jarðarinnar skal vera alveg laus við skemmdir af völdum manna eftir því sem hægt er. Ekki er talað um að skipta jörðinni til helminga eftir einföldu striki heldur frekar að horfa til þess fjölbreytileika sem er bæði á landi og í sjó, að vistkerfin fái að njóta sín og að fjölbreytnin fái að njóta sín. Sú hugmynd er ekki ómerkilegri en svo að hún endurómar í raun hugmyndafræðina sem liggur að baki þjóðgörðum frá upphafi. Fyrstu hugmyndir um þjóðgarða í nútímamynd má kannski rekja til Georges Catlins sem var einn af þeim sem fóru um norðvesturhluta Ameríku í kringum 1836. Hann sá þar mikilfengleika náttúrunnar og lagði til að hún yrði vernduð. Hann sagði í skrifum sínum, í þýðingu minni með leyfi forseta, að með mikilsverðri verndaráætlun stjórnvalda yrði til mikilsverður garður, þjóðgarður, fyrir menn og dýr í villtri og ferskri náttúrufegurð. Mér finnst merkilegt og kannski ákveðin forspá í því að hann talaði ekki um ósnortna náttúru. Í nútímanum er vel að merkja enginn staður á jörðinni sem er ósnortinn af mönnum. Jú, vissulega eru staðir sem engar mannverur hafa komið á en áhrifanna gætir alls staðar. Það á ekki síst við um miðhálendi Íslands.

Þegar við tölum um að stofna þjóðgarða þurfum við þess vegna að vera svolítið skýr um það hvað við meinum. Hvað ætlum við okkur að gera? Er það að tryggja að þessi villta og ferska náttúrufegurð verði til að eilífu? Ég myndi segja já, helst. Er markmiðið að stöðva iðnvæðingu og uppbyggingu? Já, klárlega. Er það að stöðva ágang á náttúruna, hvort sem það er efnistaka eða ofnýting á dýrum og plöntum, og jafnvel að hrófla sem minnst eða jafnvel ekki neitt við árfarvegum og öðrum vatnsgæðum? Já, klárlega. En er markmiðið að stöðva umferð manna? Það er ágætisspurning. Þarna er kannski ákveðinn sannleikur sem birtist meira að segja í markmiðslýsingu frumvarpsins og snýr að því að efla samfélög og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, ekki síst það að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins og að fólk geti lært um náttúruna og gæði hennar með því að ferðast þar um og njóta þess sem þar er.

Ég held að það sé stærsti ásteytingarsteinninn. Fjölmargir í samfélaginu hafa þegar lýst andstöðu við frumvarpið en þegar nánar er að gáð eru flestir þeirra ekki endilega að lýsa andstöðu við markmiðið um náttúruvernd eða markmiðið um þjóðgarð. Þeir lýsa áhyggjum af of ströngum reglum, of mikilli stjórnsýslubyrði, of mikilli skriffinnsku, of miklu fargani og ekki síst því að hegðun mannfólks, sem telst ekki endilega til náttúruspjalla og er kannski þvert á móti góð og eðlileg leið til þess að njóta náttúrunnar, verði að miklu leyti takmörkuð. Fólk hefur áhyggjur af því að gengið sé of langt í því. Hér held ég að sé tækifæri til að reyna að skipuleggja svæðið þannig að sú eðlilega hegðun verði ekki hindruð. Þá þurfum við að passa okkur á því að þjóðgarðurinn sé í fyrsta lagi fyrir náttúruna og í öðru lagi fyrir mannfólk, ekki bara mannfólk sem vill ganga um og ganga á fjöll heldur líka mannfólk sem vill keyra eftir vegum og fyrir mannfólk sem vill fljúga um, líka fyrir mannfólk sem hefur fundið sér einhverja aðra leið til að njóta náttúrunnar heldur en rúmast innan þess þrönga regluverks sem talað er fyrir hér.

Ég held að hægt sé að horfa til margra umsagna sem hafa nú þegar borist og marga gagnrýnisradda sem hafa nú þegar heyrst í samfélaginu og reyna að finna einhvers konar meðalhóf. Það er kjarninn í því sem ég vil koma á framfæri. Það er alveg rétt að 23 sveitarfélög eiga hagsmuni þarna en það eru líka fjölmörg önnur sveitarfélög og fjölmargt fólk sem býr utan þessara 23 sveitarfélaga sem hefur hagsmuni af verndun náttúrunnar en líka því að það hafi frelsi til að fara um hana og njóta þess sem þar er. Ef við finnum meðalhófið, ef við finnum rétta taktinn, þá er væntanlega ekki hægt að sætta alveg alla. Sumir eru kannski með áform sem snúa að því að virkja, iðnvæða og byggja upp og skerða þessa villtu og fersku náttúrufegurð. Ég gef lítið fyrir það. En við þurfum að horfa til allra hinna sjónarmiðanna, ekki síst með hliðsjón af því að náttúran sjálf er orðin takmörkuð auðlind um allan heim. Kannski er allt í lagi að minnast á það í þessu samhengi að af síðustu 120 árum hér á norðurslóðum hafa sjö heitustu árin verið síðustu sjö ár. Það er því margt að breytast og umhverfi norðurslóða sem við tilheyrum er mögulega að breytast á óafturkræfan hátt. Ég ætla ekki að fara efnislega ofan í margt af þeirri gagnrýni vegna þess að ég held að skilaboðin mín séu skýr.

Þar sem mig grunar að það sé sjónarmið sem fáir aðrir á þingi eru líklegir til að halda á lofti þá langar mig að fjalla aðeins um nokkuð sem ég hef ákveðin tengsl við, þ.e. flug. Í 18. gr. frumvarpsins eru takmarkanir á flugi. Ég tek eftir því að reynt er að gæta ákveðinnar hófsemi þar en mér finnst hægt að gera það ögn betur. Þá horfi ég til þess að í 5. mgr. 18. gr. er talað um að afla þurfi leyfis frá þjóðgarðsyfirvöldum vegna lendingar flugvéla og þyrlna utan skilgreindra flugvalla. Þar er vísað í að flugvöllur sé skilgreindur í reglugerð um flugvelli og að lista yfir skráða lendingarstaði og aðra flugvelli sé að finna í Flugmálabók Isavia. Í rauninni er réttara að kalla hana Flugmálahandbók Íslands eða AIP. Í bókinni er að finna ýmsar flugbrautir innan svæðisins, m.a. Skálavatn, Herðubreiðarlindir og Nýjadal. En í Flugmálahandbókina vantar líka margar flugbrautir sem hafa verið notaðar í áratugi, til að mynda Sprengisand, Þórisós, Nautagil, Hrauneyjafoss, Gæsavötn, Frostavöll, Dimmugljúfur og þannig mætti lengi telja. Ég hef áhyggjur af því að verði ekki opnað á þetta og reglunum breytt í dag til að hægt sé að skrá braut þá þurfi að ganga í gegnum ákveðið ferli sem felur m.a. í sér, að mér skilst, skráningargjald hjá Samgöngustofu. Sé þessu ekki breytt mun nytsemi þessara flugbrauta raskast og um leið ákveðin réttindi sem fólk hefur haft til útivistar á þeim svæðum, kannski ekki með þeim hætti að ganga á fjöll eða keyra á fjöll heldur að fljúga yfir fjöll. Ég yrði mjög sorgmæddur ef þau réttindi glötuðust.

Að auki hafa ýmsir í flugsamfélaginu lýst áhyggjum af því að farið verði með yfirflugsréttindi á svæðinu eins og hefur verið gert með Þjórsárver. Þjórsárver eru, eins og forseti veit eflaust, í sirka 600 metra hæð yfir sjávarmáli sem jafngildir nálægt 2.000 fetum en þar má ekki fljúga yfir í minni hæð en 5.000 fetum stóran hluta árs. Þess má geta að á Íslandi er yfirleitt 7.000 feta skiptihæð sem þýðir að það er 2.000 feta bil þar sem undir venjulegum kringumstæðum er í rauninni hægt að fara yfir í sjónflugsskilyrðum án þess að vera undir beinni stjórn aðflugssvæðis og þess háttar. Þess má geta að þetta 3.000 feta bil er nokkuð gróft, sérstaklega þegar horft er til þess að víða á landinu er heimilt að fljúga niður í 500 fet yfir landi án þess að gera neitt. Í Þjórsárverum eru sérstakar aðstæður. Þar snýst þetta um að verja og vernda lífríki fugla. Það yrði afskaplega skaðlegt ef þetta yrði heimfært yfir á allt flug yfir miðhálendi Íslands. Ég vona að það verði ekki gert. Ég vildi bara koma inn á þessi atriði varðandi flugið. Hér eru vissulega fleiri atriði, t.d. það að samkvæmt 18. gr. má ekki lenda á vegum en það er almennt heimilt alls staðar annars staðar á landinu svo lengi sem það truflar ekki bílaumferð og álíka. Það væri því eðlilegt að svipaðar reglur giltu þarna. Ég vona bara að hv. umhverfis- og samgöngunefnd verði meðvituð um það og taki þessi atriði til greina.

Nú er tíminn svo stuttur, herra forseti. Ég ætla bara að koma inn á eitt að lokum varðandi rannsóknir og vísindi. Eins og við þekkjum eru á miðhálendi Íslands mjög áhugaverð víðerni frá vísindalegu sjónarmiði og þar eru mörg tækifæri til að rannsaka ýmislegt. Eitt af því sem mér þykir vanta í þetta frumvarp er að samhliða rekstri þjóðgarðsins sé settur á laggirnar sjóður sem fjármagnar vísindalegar rannsóknir á þessu tiltekna svæði. Kannski gefst tími til þess að ræða það frekar síðar en ég ætla að nota síðustu 14 sekúndurnar til að segja: Þetta skiptir máli. Við höfum mikla hagsmuni af því að vernda miðhálendi Íslands og gera það vel. En við verðum að passa að við gerum það á réttum forsendum, að við séum að verja náttúruna (Forseti hringir.) en ekki endilega fyrir því (Forseti hringir.) að fólk njóti hennar.