151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum á þeim stað í þingstörfunum að við ræðum hér í 1. umr. eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar, áherslumálum ríkisstjórnar sem samsett er af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þetta er eitt af stóru málunum í stjórnarsáttmála þessara flokka, mál sem hefur farið í gegnum ríkisstjórn og stjórnarflokkana a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar. Það er komið hingað inn í þeirri mynd sem við sjáum það núna. Þá koma allt í einu þingmenn þessara flokka og virðast enga ábyrgð á því bera. Nú hlaupast þeir undan merkjum. Og hvers vegna skyldi það vera? Jú, það gæti verið vegna þess að komið gæti að því að þeir þyrftu að taka afstöðu í málinu. Kannski þurfum við bara að gera það til að fá það í ljós hvort menn standa í rauninni að málinu sem á að taka drjúgan tíma þingsins á næstu mánuðum, hvort þeir styðja það raunverulega. Það er svolítið sérstakt, herra forseti, að við séum í þeirri stöðu að vera með þingmál til umræðu sem við höfum tilfinningu fyrir að menn séu að reyna að komast hjá að samþykkja eða taka afstöðu til. Alla vega hef ég á tilfinningunni að menn vilji gjarnan draga það sem lengst að taka afstöðu til þess, þ.e. til að ríkisstjórnin þurfi mögulega ekki að hverfa frá af því að ekki sé staðið við stjórnarsáttmálann. En þetta eru nú hugrenningar sem ég held að séu ljósar öllum sem fylgjast með þingstörfum, stjórnmálum og ríkisstjórninni. Nú er komið að skuldadögunum og komið að því að menn standi við það sem þeir tóku að sér. Þá virðast sumir vera búnir að reima á sig takkaskóna og taka til fótanna.

Virðulegur forseti. Ég ætla örstutt að reifa áhyggjur mínar og afstöðu til málsins. Ég get lýst afstöðu minni strax. Ég er á móti því eins og það liggur fyrir og tel það þannig úr garði gert að ekki sé hægt að bæta það nokkuð í þingstörfum. En sjáum til, látum á það reyna. Hér fyrr í dag fór hv. þm. Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, ágætlega yfir hvert markmið frumvarpsins er, þ.e. að stofna þennan miðhálendis- eða hálendisþjóðgarð sem hann heitir víst núna. Það er reyndar áhugavert. Af hverju að skipta allt í einu um nafn? Hvort það er eitthvert kennitöluflakk á þjóðgarðinum veit ég ekki. En það hljómar einhvern veginn undarlega, finnst mér, að skipta bara um nafn á þessu. Eins og hv. þm. Bergþór Ólason benti réttilega á er hægt að ná öllum eða í það minnsta flestum þeim markmiðum sem sett eru fram með hálendisþjóðgarði án þess að efna til þessa stóra máls.

Svo er annað sem maður rekur augun í og vakin hefur verið athygli á. Ákveðnar mótsagnir virðast vera í frumvarpinu eða þessum hugmyndum. Einhvern veginn virðist skrifað inn í frumvarpið og fyrirætlanirnar að nú eigi að bæta aðgengi að hálendinu, leggja vegi o.s.frv. en á sama tíma er talað um að vernda, koma í veg fyrir og takmarka umferð. Þá fer maður hugsa hvernig hafi gengið með aðra þjóðgarða, hvernig hafi gengið með Vatnajökulsþjóðgarð. Við höfum fengið upplýsingar og ábendingar um að þar mætti nú ganga örlítið betur. Þar vantar fjármagn til að gera flest sem hefur verið lofað. Þótt kannski sé búið að útbúa salernisaðstöðu er ekki hægt að halda henni opinni því að starfsfólk vantar o.s.frv. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að gera vel það sem við erum með nú þegar áður en við förum að bæta við verkefnin og vandamálin, nema það sé bara vilji þessarar ríkisstjórnar að halda áfram að stækka báknið, stækka kerfið. Nú sjáum við að það á að opna budduna hjá ríkissjóði enn meira, um 55 milljarða aukalega í fjárlögum. Fáir virðast hugsa til þess að einhvern tímann þarf að borga það allt til baka.

Þessi hugmynd um þjóðgarð er í grunninn mjög göfug, ef við getum orðað það þannig, þ.e. að búa til vettvang eða svæði sem er ósnortið og lýtur ákveðnum lögmálum o.s.frv. En það vill nú þannig til að stór hluti af landi okkar er þannig frá náttúrunnar hendi. Hér eru stór svæði sem er erfitt að komast á, sem maður gjarnan vildi komast á, stór svæði sem menn leggja jafnvel mikla göngu á sig til að sjá, gista þar eina nótt o.s.frv. Okkur hefur meira að segja gengið illa að halda við þeim fáu vegum sem eru á hálendinu eða að stuðla að því að fólk komist þokkalega klakklaust um þá náttúru sem það getur þó séð með því að fara akandi, kjósi það að nota þann ferðamáta.

Í frumvarpinu virðist líka gert ráð fyrir einhvers konar alræðisvaldi hjá þjóðgarðsverði og ráðherra með reglugerðarsetningum, boðum og bönnum. Ég fæ ekki annað séð. Að sjálfsögðu vona ég að annað komi í ljós en að hreinlega sé reiknað með að þeir sem stýra eiga þessum þjóðgarði geti sett reglurnar, skipað mönnum að fara eftir þeim, fylgst með því hvort farið sé eftir þeim og ákært menn. Að vísu er tekið fram að þeir sem telja á sig hallað og hafa fengið einhvers konar „dóm“ eða úrskurð af hendi þessa apparats geta skotið málum sínum til úrskurðarnefndar. Ég segi nú bara: Þó það nú væri. Því er af mörgu að taka þegar maður veltir fyrir sér hvert markmiðið með þessu er í rauninni.

Ákveðnar breytingar hafa verið gerðar frá því að frumvarpið kom fyrst fram en af því sem ég hef náð að kynna mér óttast ég mjög að breytingarnar verði ekki svo viðamiklar þegar kemur að grundvallarmálum eins og frjálsri för fólks um landið okkar. Það virðist eiga að setja einhvers konar reglur og boð og bönn um alla skapaða hluti innan þjóðgarðsins. Menn eiga að þurfa að sækja um leyfi fyrir hinu og þessu og greiða fyrir það. Einhvern veginn á að búa til girðingar og takmarkanir og draga úr möguleikum fólks til að ferðast um landið, skoða það og njóta þess. Jú, gert er ráð fyrir að menn geti sótt um leyfi fyrir hópa og þess háttar til að vera á ákveðnum stöðum. Menn þurfa væntanlega að gista í tjaldi á fyrir fram ákveðnum stöðum. Ef ég skil það rétt geta þeir ekki lengur farið út fyrir veg með tjaldið og gengið kannski kílómetra, fundið fallega laut, gist þar í tvær, þrjár, fjórar nætur, veitt mögulega í læknum eða baðað sig í ánni. Alla vega virðist eiga að setja reglur um það.

Ég hef líka áhyggjur af því, herra forseti, að þeir sem stýra hálendisþjóðgarðinum, ráðherra, þjóðgarðsvörður o.s.frv., fái allt of mikið vald yfir því sem má framkvæma og gerast innan hans. Ef allt sem ég les í þessu frumvarpi er saman tekið, ef skoðuð eru öll þau leyfi og boð og bönn og skilyrði og reglugerðir sem ráðherra á að setja o.s.frv., velti ég því fyrir mér hvort yfirleitt verði nokkur einasti möguleiki á að fara í nýtingu á náttúruauðlindum innan þjóðgarðsins eða t.d. leggja raflínur og þess háttar ef þess þarf. Allt mun það nú væntanlega skýrast. Mig langar þó að nefna nokkuð sem ég rak augun í á einum stað í frumvarpinu en það er í greinargerðinni. Þar er svo sem ýmislegt sem hægt er að drepa á. Ég verð aðeins að fá að nefna að á bls. 17 í greinargerðinni er talað um tilefni og nauðsyn lagasetningar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með nýjum kynslóðum koma nýjar áherslur á að náttúruna beri að vernda og nýta með þeim hætti að hún njóti vafans.“

Ég velti því fyrir mér hvort hér sé ekki einmitt verið að fara öfuga leið, hvort ekki sé einmitt verið að takmarka möguleika framtíðarinnar, möguleika komandi kynslóða á að taka ákvarðanir um hvað eigi að gera við íslenska náttúru. Hvað á að gera á þessu stóra svæði sem þjóðgarðurinn á að taka til? Hvers vegna erum við að fara að merkja það sem þjóðgarð og setja þar af leiðandi boð og bönn fyrir komandi kynslóðir? Náttúran á þessu svæði, eins og hún er í dag, hefur að miklu leyti getað varið sig sjálf. Þess vegna dregur hún að sér ferðamenn eða þá sem eru að forvitnast um íslenska náttúru.

Ég ætla að staldra örlítið við, herra forseti, á bls. 18 og 19 í greinargerðinni. Þar er fjallað um að alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN hafi skilgreint viðmið um hvað skuli hafa í huga þegar verndarsvæði er sett á laggirnar. Samkvæmt samtökunum er verndarsvæðum skipt í sjö flokka sem alla er hægt að nota innan þjóðgarða. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa aðeins á bls. 19:

„Flokkarnir eru skilgreindir út frá því hvaða meginmarkmið eru með vernd svæðis. Þannig má gera landsvæði að þjóðgarði þar sem meginmarkmið hans sem heildar er skilgreint í verndarflokkinn þjóðgarð en jafnframt eru skilgreind stök minni svæði innan þjóðgarðsins í aðra verndarflokka, allt eftir því hver meginmarkmiðin eru með vernd viðkomandi svæðis. Slíkt er til að mynda gert í Vatnajökulsþjóðgarði. Gert er ráð fyrir að svæði innan Hálendisþjóðgarðs verði skilgreind samkvæmt þessari flokkun. Heimilt er að stækka þjóðgarðinn síðar með samþykki hlutaðeigandi sveitarfélaga og að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum.“

Eftir mjög litla eftirgrennslan sýnist manni þessi flokkun falla undir svokallaðan II. flokk IUCN. Þá veltir maður fyrir sér hvað í ósköpunum það þýðir, eins og stundum er sagt hér. Þar virðist vera um að ræða töluverða takmörkun á nýtingu auðlinda innan þess svæðis sem fær þá flokkun. Svo virðist vera sem frumvarpið setji hálendisþjóðgarðinn í flokk II samkvæmt skilgreiningu þessara samtaka. Ef ég hef skilið þetta rétt, og ég hef að sjálfsögðu smáfyrirvara á því, þá þýðir það að innan þessa svæðis, innan þjóðgarðsins ef hann verður allur skilgreindur þarna, verði mjög mikil takmörkun á nýtingu, ef ekki beinlínis óheimilt að nýta orkulindir, hvort sem það er til virkjunar vatnsafls, jarðvarma eða mögulega vinds. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að þegar þessir flokkar eru hafðir til viðmiðunar, eins og ég skil þetta, heimilar í raun enginn þeirra orkuvinnslu.

Svo er annað sem við þurfum að hafa í huga á sama tíma. Ef flokkunin hefur þessi áhrif, sem hlýtur að koma í ljós við skoðun í nefndinni, hvernig fer það saman við þá stefnu sem við höfum sett fram varðandi orkunýtingu eða nýtingu auðlinda landsins? Ég ætla ekki að hafa mörg orð um rammaáætlun. Ég mun gera það síðar. Það er handónýtt og vonlaust ferli eins og ég hef margoft sagt í þessum ræðustól. Ég vil nota tækifærið til að endurtaka það. Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur orkumöguleikum framtíðarkynslóða þegar við tökum langstærsta hlutann af því svæði sem sér okkur fyrir orku til framtíðar og flokkum þannig að ekki sé hægt að nýta orkuna. Við hljótum að staldra við, þó ekki væri nema fyrir komandi kynslóðir, að þær geti orðið sér úti um orku ef á þarf að halda. Ef rétt er að þessi flokkun heimili enga nýtingu er það áhyggjuefni. Það er engin spurning um það í mínum huga. Gleymum því ekki að verði þjóðgarður að veruleika erum við að taka gríðarlega stóran hluta af íslensku landsvæði undir hann.

Nú hef ég farið á hundavaði yfir frumvarpið og nokkrar áhyggjur mínar, herra forseti. Ég held að stjórnarflokkarnir hefðu þurft að hugsa málið betur áður en þeir lögðu það fram. Gleymum því ekki að þótt hæstv. umhverfisráðherra leggi málið fram í góðri trú og af mikilli samviskusemi — og ég virði það mjög að ráðherrann skuli vera trúr stefnu sinni, við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti en það er alveg hægt að virða það — þá hljóta það að vera ákveðin vonbrigði að sjá samstarfsaðila og samverkamenn í því að málið sé hér í þinginu hlaupast frá því líkt og Sjálfstæðismenn virðast gera núna enda eru þeir sjálfsagt búnir að reima á sig spariskóna fyrir næstu kosningar.