151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Loksins, loksins, segi ég nú bara. Og ég skynja það af ræðum hv. kollega minna að þeir skynja sögulegt mikilvægi þessarar stundar. Við sem berum hag hálendisins og þar með landsins alls fyrir brjósti, sem ég veit að við gerum öll hér, vitum sem er að sagnfræðingar framtíðarinnar munu líta aftur til þessa tíma, horfa til hans og sjá hverjir þingmanna voru nógu framsýnir til að taka þátt í að stofna þjóðgarð á hálendinu. Ég treysti því að ég verði spurður: Afi, tókst þú þátt í því? Og ég mun segja: Já, litla hnáta. Það gerði ég svo sannarlega. Gjörðu svo vel.

Talandi um söguna, hálendið hefur verið hjarta Íslands býsna lengi. Það tengist fjölskyldu minni töluvert. Ferðaþjónusta sem langafi minn stofnaði í Þjórsárdal gerði út á hálendið. Langafi áttaði sig á því hversu dýrmætt og magnað landsvæði það væri og þangað vildi fólk fara til að skoða það. Það er ég viss um að hann hefði verið ánægður með að geta komið slíkum ferðum inn í þann ramma sem þjóðgarður gefur.

Forseti. Fá mál hygg ég að hafi verið betur undirbúin og í meira samráði en einmitt þetta mál hér. Það er u.þ.b. slétt ár síðan þverpólitísk þingnefnd skilaði niðurstöðum sínum, mjög góðri vinnu sem ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér í þaula, þar sem farið var yfir hverjar ættu að vera stóru línurnar, og reyndar niður í mjög smáar línur líka, varðandi stofnun þjóðgarðs. Um ári síðar fáum við tækifæri til að fjalla um afurðina. Í millitíðinni hefur hæstv. ráðherra farið víða um land, kynnt málið, haldið fundi, talað við fólk og sinnt eins og best verður á kosið því samráði sem gott er að hafa. Fólk gerir það allt of oft, forseti, að rugla saman samráði og því hvort það er sammála niðurstöðunni. Það er nefnilega tvennt ólíkt, forseti. Haft hefur verið samráð við mig um ýmislegt í lífi mínu þar sem niðurstaðan hefur kannski verið sú sem ég hef ekki endilega verið sáttur við en ég get ekki kvartað yfir samráðsleysi. Og hér get ég ekki kvartað undan því, heldur beinlínis hrósa ég hæstv. ráðherra fyrir það hvað hann hefur lagt mikið upp úr því að kynna þetta mál fyrir öllum sem að því koma. Skyldi engan undra, þetta er náttúrlega í stjórnarsáttmálanum. Það er eitt af stóru málunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stofnun miðhálendisþjóðgarðs eða þjóðgarðs á miðhálendinu. — Ég vona að forseti fyrirgefi mér að muna ekki orðrétt upp úr stjórnarsáttmálanum en þjóðgarðurinn er þar.

Af hverju skyldi hann vera þar? Af hverju hefur þessi hugmynd verið á kreiki árum og áratugum saman? Af hverju viljum við stofna þjóðgarð á hálendinu? Jú, þetta snýr að verndun náttúru og sögu, svo sem landslags, víðernis, lífríkis, jarðmyndana og menningarminja. Ég hefði haldið að það væri eitthvað sem við værum öll sátt við. Að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og menningar og sögu þjóðgarðsins, það er nú aldeilis jákvætt. Að auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist, það hefði ég haldið að allir þingmenn hér inni styddu. Að stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar, að leitast við efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og á landinu öllu.

Forseti. Hér hef ég tæpt á ekki nema fimm af tíu markmiðum hálendisþjóðgarðs sem finna má í frumvarpi þessu. Ég á enn eftir að hitta þann þingmann sem hefur sagst vera á móti þeim markmiðum. Ég á enn eftir að heyra rök sem halda nokkru vatni gegn því að akkúrat þessi markmið náist með stofnun þjóðgarðs. Og ég get haldið áfram: Þjóðgarðurinn á að verða vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu innan þjóðgarðs og þróun hennar. Stuðla á að rannsóknum og fræðslu um þjóðgarðinn. Þetta er hálendið. Það þarf rannsóknir og fræðslu um þetta hjarta landsins. Endurheimta á vistkerfi sem hafa raskast, varðveita þjóðlendur í þjóðgarði og stuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða um málefni landsvæðisins. Samvinna og samstarf er leiðarhnoðað í gegnum allt skipulagið sem teiknað er upp hér í frumvarpi um hálendisþjóðgarð.

Hverjir skipa stjórn þjóðgarðsins, forseti? Jú, sex fulltrúar sveitarfélaga, einn frá hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins, einn fulltrúi er tilnefndur af hverjum eftirtalinna aðila: Útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af ferðaþjónustusamtökum á rekstrarsvæðum þjóðgarðsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Einn fulltrúi er skipaður af ráðherra. Hér kristallast samstarfið og samráðið sem lagt hefur verið upp úr og er ráðherra til hróss í allri þessari vinnu. Það sést líka í umdæmisráðunum því þjóðgarðinum verður skipt upp í rekstrarsvæði þar sem eru umdæmisráð. Hverjir sitja þar? Jú, fimm fulltrúar eru tilnefndir sameiginlega af sveitarfélögum og svo er einn fulltrúi tilnefndur af hverjum eftirtalinna aðila: Útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum og Bændasamtökum Íslands, tilnefndur úr hópi nytjaréttarhafa á viðkomandi rekstrarsvæði, og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðaþjónustusamtökum á viðkomandi svæði og Samtökum ferðaþjónustunnar. Það er með öðrum orðum þannig að í umdæmisráðunum eru sveitarfélögin í meiri hluta og samráðið og samvinnan sem tryggð er hér ætti að vera öllum þeim sem bera hag síns sveitarfélags, síns landsvæðis en einnig alls þessa svæðis fyrir brjósti kappsmál að tryggja. Það samráð er ekki endilega fyrir hendi í dag. Það er eitt af því sem stofnun þjóðgarðs kemur í gott horf.

Það veldur mér áhyggjum, forseti, að heyra og lesa þær rangfærslur sem uppi hafa verið um þjóðgarð á hálendinu í umræðunni víða síðustu daga, hvort sem er í greinum, viðtölum, á Facebook eða hvar sem er. Það er ábyrgðarhlutverk lýðræðislega kjörinna fulltrúa að fara ekki með fleipur í jafn mikilvægu máli og hér er. Staðreyndirnar tala sínu máli. Skipulag þjóðgarðsins sýnir svo ekki verður um villst hver hugsunin er á bak við þá dreifstýringu og samvinnu sem hefur ráðið för hér. Við sem stöndum frammi fyrir því tækifæri að geta samþykkt hálendisþjóðgarð þurfum að standa undir þeirri ábyrgð og fylgja þeirri góðu stefnumótun sem unnið hefur verið að öll þessi ár. Málið þarf að koma sem fyrst til nefndar og til umsagnar svo að öll þau fjölmörgu sem hafa á því skoðun hafi vettvang til að koma henni á framfæri.

Það er bjargföst trú mín, forseti, að þegar búið er að skilja frá allar þær rangfærslur og þann misskilning sem uppi er í umræðunni sé aðeins ein niðurstaða möguleg þeim sem nálgast málið faglega. Hálendisþjóðgarður skapar ótal tækifæri sem vítavert væri að nýta ekki. Þjóðgarðurinn yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum hingað til. Í því verkefni hljótum við öll að vilja taka þátt.