151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er fremur fátíður gestur í þessum ræðustóli en ætla að láta það eftir mér að hafa nokkur orð um þetta stóra mál. Ég tek það fram að ég tala hér fyrst og fremst sem nefndarmaður í þverpólitísku þingmannanefndinni sem lagði sitt af mörkum við undirbúning þessa máls. Það var og er eina verkefnið sem ég hef gefið mig í fyrir utan það að vera forseti Alþingis á þessu kjörtímabili. Það segir kannski nokkuð um hug minn til þessa máls að ég féllst á að taka sæti í þessum starfshópi en hef hafnað öllum óskum um að taka að mér önnur störf á þessum árum.

Ég var líka í samstarfsnefnd, sameiginlegri þverpólitískri þingmannanefnd, til undirbúnings stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, þannig að ég er málinu allkunnugur nokkuð langt til baka. Verkefnin voru að mörgu leyti hliðstæð og sjónarmiðin og spurningarnar sem við mættum voru mjög hliðstæð. Það þurfti svipaðan feril til að þroska það mál og tala menn saman um að þetta væri eitthvað sem væri rétt og gott að gera. Að lokum var það gert. Það var þó nokkuð erfið fæðing, en ég held að enginn myndi vilja bakka í dag og hætta við að hafa þjóðgarða á þeim svæðum sem þar eru. Ég er algerlega sannfærður um að ef heimamenn á svæðunum sem liggja að Vatnajökulsþjóðgarði væru spurðir núna myndu þeir ekki vilja bakka. Það þori ég að fullyrða, a.m.k. á því svæði sem ég þekki best fyrir norðan og austan og á Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri yrðu svörin þessi.

Þetta hefur ekki verið gallalaust fyrirbæri, ekki verið allt saman dans á rósum, en þetta hefur þroskast vel og almenn ánægja orðin með þetta í dag. Og þetta hefur skilað mjög miklu af því sem til stóð; verulegri uppbyggingu innviða, stóraukinni landvörslu og gæslu og fjölda starfa. Sem dæmi má taka að ég hitti menn á Höfn í Hornafirði, ég held sumarið 2019 — maður var nú ekki mikið á ferðinni í sumar — og þá var mér sagt að yfir 20 störf hefðu skapast, að ungt menntað fólk kæmi heim úr skólunum að vinna í sinni heimabyggð við störf sem það dreymdi um að fá að sinna, við landvörslu og gæslu á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Það munar um það í byggðarlagi eins og Hornafirði.

Ég er sæmilega kunnugur hálendinu, þó ekki nálægt því eins vel og ég vildi. Ég lagði það þó einu sinni á mig — eða lagði það ekki neitt á mig, ég gerði það mér til mikillar ánægju að labba skáhallt endilangt Ísland, eins og Örn Arnar sagði reyndar í vísu, sem ort var löngu fyrr, þegar hann labbaði í hina áttina, frá Langanesströnd og suður til náms. Hann átti ekki fyrir fargjaldi með strandferðaskipinu og labbaði frá Langanesströnd og hingað í Kennaraskólann í Reykjavík og orti um það vísu:

Lengi er labbað af einum,

leiðin torsótt og vönd.

Skáhallt endilangt Ísland,

austan af Langanesströnd.

Ég rakst á þessa vísu eftir að ég hafði labbað í hina áttina. Ég get mælt með þessari aðferð, ég get mjög mælt með henni og vilji menn og hafi þeir möguleika á því og heilsu til þess að upplifa Ísland og fá það beint í æð, láta það renna sér í merg og blóð, þá eiga þeir að labba um hálendið í kyrrð og næði og gjarnan að einhverju leyti einir. Besta leiðin til að upplifa landið og fá það inn í sig er að ganga um það. Næstbest er að fara um á hestbaki.

Ég hef sterkar taugar til þessa svæðis, ég viðurkenni það alveg. Einhver getur þá bara haldið því fram að ég sé hlutdrægur í málinu. Gott og vel. En mér er það svo kært og fyrir mér eru hinir eiginlegu helgidómar míns lífs að komast t.d. í brekkuna í Arnarfelli hinu mikla, sjá þá ótrúlegu gróðurvin í yfir 600 metra hæð yfir sjó og krikann milli Kerfells og Arnarfells hins mikla, upp að Þjórsárverum, þar er hjarta Íslands, þar er helgidómur. Fyrir okkur sem ekki erum trúuð er vissulega hægt að komast í helgidóma, sem eru kannski annars eðlis en kirkjur eða moskur. Mér er það mikið tilfinningamál að við stöndum okkur, núverandi kynslóð í landinu, í gæslu okkar fyrir þessum perlum sem þarna liggja.

Ég fagna því þess vegna mjög að þetta mál er þó hingað komið og vona að þinginu og þingnefndinni takist vel til í sínu gríðarlega mikilvæga verkefni að skoða það vel. Að sjálfsögðu þarf að fara einu sinni enn yfir þetta allt saman og fá inn nýjar umsagnir og kalla til gesti. Ég er sannfærður um að það er hægt að vinna þetta mál áfram þannig að samstaðan um það breikki. Eru þó vísbendingar um að, hvað það nú var, 65% þjóðarinnar séu hlynnt því að stofna þennan þjóðgarð, vilji fá sinn hálendisþjóðgarð. Það er væntanlega eitthvað sem menn gera stundum eitthvað með þegar landið virðist liggja þannig, og að sjálfsögðu á að leita eins góðrar samstöðu og mögulegt er. En ég segi líka alveg hiklaust: Það er ekki þannig að sá síðasti eigi að hafa neitunarvald. Á einhver örlítill grenjandi minni hluti að hafa neitunarvald um það að þjóðin megi stofna þennan þjóðgarð sinn á sínu eigin landi? Því að hér erum við að tala um þjóðlendurnar. Við erum að tala um hina gömlu almenninga Íslands sem frá landnámsdögum upp í gegnum alla söguöld og inn á síðmiðaldir voru í hugum þjóðarinnar ekkert annað en almenningar, eins og síðan hefur komið á daginn að eru að stærstum hluta.

Nefndin valdi þá leið, til að greiða götu málsins, að draga í raun og veru minnsta samnefnara, þetta væru þjóðlendur innan hálendislínunnar. Er þá ekki staðan býsna sterk til að á því svæði landsins megi þjóðin stofna sér sinn þjóðgarð? Það finnst mér og ég bið menn að hafa það í huga þegar þeir ræða þetta úr öðrum áttum.

Nefndin þekkti vel og fékk náttúrlega beint í æð á sínum fundum úti um allt land, með sveitarfélögum og félagasamtökum og hagsmunaaðilum og áhugasömum einstaklingum, sem voru ýmist hrifnir af hugmyndinni eða á móti henni, eiginlega öll þau sjónarmið sem við mátti búast og ég vissi nákvæmlega fyrir fram hver þau yrðu vegna þess að þau voru nákvæmlega þau sömu og þegar við vorum að undirbúa stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Eðlileg tortryggni, eðlilegar áhyggjur og eðlilegar spurningar: Á nú að fara að taka völdin af okkur og stjórna þessu öllu fyrir sunnan? Nei, sögðum við, þetta verður væntanlega dreifstýrt módel, à la Vatnajökulsþjóðgarður, enda hefði Vatnajökulsþjóðgarður ekki orðið til nema vegna þess að við í nefndinni á þeim tíma lögðum upp það módel.

Það verður að stofna þetta í eins mikilli sátt við svæðin og heimaaðilana og hægt er. Þau þurfa að vera alveg ráðandi í því hvernig farið er með málin á sínu svæði. Og þannig er það í Vatnajökulsþjóðgarði.

Svo hafa menn áhyggjur hér af því að verið sé að troða á sveitarfélögunum. En bíddu, hvernig er þetta? Sveitarfélögin, kjörnir fulltrúar eða framkvæmdastjórar sveitarfélaga verða í meiri hluta í umdæmisráðunum. Og upp úr umdæmisráðunum gengur meiri hluti sveitarstjórnarmanna í stjórn þjóðgarðsins, þannig að sveitarfélögunum er tryggður alveg óvenjulega sterkur vettvangur í þessum efnum, enn fleirum; náttúruverndarsamtökum, útivistarsamtökum, bændum og öðrum slíkum aðilum sem eðlilegt er að hafa þarna við borðið. Og hvað eru menn að gera með þessu? Menn eru að búa til vettvang, menn eru að búa til samstarfsvettvang þeirra aðila sem þurfa að vinna saman til þess að vel fari. Þar taka menn vandamálin upp á borðið, ræða þau og leysa þau, hvort sem það er út af einum vegaslóða eða einhverju öðru. Er það ekki betra en að menn æpi hver á annan einhvers staðar hver í sínu lagi? Auðvitað er það stórkostleg framför að ná málefnum þessa svæðis inn í lýðræðislega uppbyggt dreifstýrt stjórnkerfi sem er til að takast á við þau mál sem þarf að takast á við.

Það er ein stóra ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að stofna þennan þjóðgarð. Það vantar þennan vettvang í dag á öllu svæðinu sem liggur utan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá segja menn hér í umræðunni: Já, en er ekki heilmikið af friðlýstum svæðum þarna sem verða með? Er ekki gott ástand þar? Nei, það er ekki gott ástand þar. Þau hafa á köflum verið hálfmunaðarlaus.

Og það er undarlegt að enginn skuli nefna það hér í umræðunni að verið er að færa svæðunum, heimamönnum, stóraukin völd í þessu frumvarpi. Verið er að færa vald frá Umhverfisstofnun í umdæmisráðin, og svo í stjórn umsýslu friðlýstu svæðanna. Heimamenn hafa mjög lítið um þau að segja í dag og það er löng leið þeirra að komast til áhrifa gagnvart því hvernig farið er með friðlýstu svæðin, en um leið og þau fara inn í þjóðgarðinn fá menn þá stöðu sem ég hef hér verið að draga upp. Bíddu, er það þá ekki framför? Jú, auðvitað. Við lögðum á það áherslu frá byrjun í nefndinni og það endurspeglar frumvarpið algerlega og er algerlega trútt niðurstöðum nefndarinnar, sem ég tel vera mikilvægt.

Í fyrsta lagi, og það þarf að segja þetta vegna þess að verið er að halda öðru fram, er ekki raskað við neinum hefðbundnum nytjum á þessu svæði. Þær eiga allar að halda áfram, að vísu með einu skilyrði. Eru menn á móti því skilyrði? Það er að nýtingin sé sjálfbær. Hver hefur eitthvað á móti þessu? Að allar hefðbundnar nytjar; upprekstur, beit, veiði, sportmennska, geti haldið sér, en þær þurfa að sjálfsögðu að uppfylla kröfur um nýtingu sjálfbærrar þróunar.

Það er búið að mæta áhyggjum sveitarfélaganna út af skipulagsþætti málsins sem leit út fyrir að ætla að verða erfiður og var það sem sveitarfélögin nefndu, sem í upphafi voru mjög efins um ágæti þessa, að stjórnunar- og verndaráætlanir yrðu bindandi og þær yrðu að breyta sínu skipulagi í samræmi við þær. Umhverfisráðherra hefur einfaldlega komið til móts við þau og sagt: Allt í lagi, þær verða ekki bindandi, nei, nei.

Í sjálfu sér ætti ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af þessu, sem ég sagði, að sveitarfélögin verða hvort sem er ráðandi við gerð þessara stjórnunar- og verndaráætlana, en í viðbót hafa þau hvert og eitt sitt sjálfstæða skipulagsvald og þurfa ekki að gefa það eftir ef einhver árekstur verður milli þess sem þau hafa samþykkt í sínu skipulagi og stjórnunar- og verndaráætlunar. Þá gildir skipulag sveitarfélagsins og menn þurfa að setjast niður og reyna að finna út úr því. Og það munu menn auðvitað að gera.

Þannig að ég tel að þarna hafi verið algerlega mætt þeim þætti sem sveitarfélögin höfðu mörg áhyggjur af og ég hef heyrt í sveitarfélögum sem segja: Já, fínt, það er búið að leysa þetta. Gott. Og málið hefur stórbatnað. Svo er því haldið fram í umræðunni að ekki hafi neitt verið gert með sjónarmið sem nefndin tók á móti í sínu starfi. Heyr á endemi. Það var í nánast öllum tilvikum reynt að mæta slíkum málefnalegum óskum. Ég nefndi áðan í andsvari t.d. hvernig búið væri að tryggja aðild Bændasamtakanna. Og það eru ekki bara hvaða bændur sem er, heldur skulu það vera bændur sem stunda nýtingu sem verða fulltrúar sinnar stéttar í umdæmisráðinu. Það verða sem sagt virkir bændur sem nýta svæðið sem í hlut á. Það er skilyrði fyrir því að þeir geti verið fulltrúar stéttar sinnar í umdæmisráðunum. Er þá ekki vel fyrir því séð?

Í þriðja lagi höfðu ýmsir áhyggjur af því að að hróflað yrði á einhvern hátt við þeirra stöðu þeirra sem væru fyrir með starfsemi á svæðinu. Því er mætt með því að það er sérstaklega tekið fram, og á það lögðum við mikla áherslu í nefndinni, að það verði útrétt hönd til þeirra sem eru starfandi fyrir á svæðinu, til Ferðafélagsins, til Útivistar, til upprekstrarfélaga, til veiðifélaga og annarra þeirra sem veita þjónustu og standa fyrir starfsemi á svæðinu. Við vorum sérstaklega með í huga aðila eins og veiðifélag Holta- og Landmanna, sem sér glæsilega um Veiðivötn og svæðið þar í kring. Auðvitað eru þeir sjálfkjörinn samstarfsaðili þjóðgarðsins um það svæði. Upprekstrarfélög á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði sem reka myndarlega skála og áningarstaði, Áfanga, Galtará, Ströngukvísl, hvað það nú er. Það væri ágætt fyrir menn að heimsækja þessi svæði og kynna sér þau. Þar eru sjálfkjörnir samstarfsaðilar við þjóðgarðinn. Ég sé það fyrir mér að gerðir verði umsýslu- og þjónustusamningar við svona aðila og þeir fái fjárhagslegan stuðning til að sjá vel um sín svæði. Þeir eru bestir til þess. Þannig á andinn í þessu að vera og 20. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir þessu.

Eins og ég hef áður komið inn á er í raun og veru, öfugt við það sem víða er haldið fram í umræðunni, verið að færa heimamönnum stóraukin áhrif og völd í þessu frumvarpi. Þeir fá miklu sterkari stöðu gagnvart öllu því svæði sem lendir innan þeirra umdæmis með þessu en frá því ástandi sem er í dag, frá því ástandi sem er gagnvart friðlýstum svæðum, sem eru hjá Umhverfisstofnun, svo ég tali nú ekki um á því svæði sem er hvergi, þeim þjóðlendum sem liggja bara þarna einhvers staðar á milli og eru hvergi í dag almennilega. Þar verður mikil breyting til hins betra.

Dreifstýringarmódelið í þessu hefur að mínu mati fengið allt of litla athygli í þessari umræðu. Það er eins og menn séu alltaf að reyna að tala sig í burtu frá því að hér eru tímamót á ferðinni vegna þess að gengið er lengra en í Vatnajökulsþjóðgarði og voru það þó alger tímamót í því að byggja upp svona dreifstýrt stjórnkerfi undir stjórn heimamanna en ekki frá einni miðstýrðri stjórn. Hér er haldið áfram á þeirri braut og gengið lengra ef eitthvað er.

Ég ætla svo að lokum, herra forseti, að gerast sá spámaður, að þeirri kynslóð íslenskra stjórnmálamanna sem skilar í höfn því verki að stofna þennan stórkostlega, merkilega þjóðgarð á heimsvísu með gríðarlegum tækifærum fyrir okkur öll, verði þakkað um aldir á Íslandi — um aldir, því að við erum ekki að taka neitt frá neinum með því að stofna þennan þjóðgarð. Við erum að tryggja að hlutir verði til óskemmdir og ósnortnir til handa komandi kynslóðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)