151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins í viðbót um 18. gr., um umferð og dvöl, þá vek ég athygli á 5. mgr. sem er athyglisverð. Þar er, að ég hygg, nýmæli á ferð eftir miklar umræður í nefndinni. Það er það að hægt er að binda notkun tiltekinna vegaslóða, takmarka hana og binda hana við tiltekna nýtingu auðlinda eða notkun í ákveðnu skyni. Þetta er að óskum þeirra þar sem t.d. vegir liggja inn á afrétti og menn nota til smalamennsku, lélegir vegir sem þola ekki umferð og er ekki heppilegt að bara af því að það heitir vegur þá geti menn farið þar um á öllum árstímum eins og þeim sýnist. Það er ekkert leyndarmál að vegslóðarnir og umferðin eru hlutir sem lengi hefur staðið til að ná betur utan um. Sem betur fer er búið að vinna heilmikla vinnu í því að skrá þessa slóða og vegi og koma skikk á þau mál. Þarna er á ferð áhugavert nýmæli í viðbót sem ég held að geti orðið mjög til góðs.

Varðandi mörkin og umræður um það. Já, það urðu engar smáræðisumræður um það því að það var náttúrlega eitt af stóru viðfangsefnunum, og við veltum við hverjum steini, ef svo sem má segja, en komumst fljótlega að þessari niðurstöðu, til að reyna að skapa meiri sátt, að reyna ekki að teygja okkur út fyrir hálendislínuna nema þegar friðlýst svæði lægju í gegnum hana, og sleppa því frekar þó að það hefði verið mjög freistandi, t.d. í mínu tilviki, að reyna að fá aðliggjandi hálendissvæði sem færu mjög vel með þjóðgarðinum. Ég get nefnt svæði fyrir austan hraunin og öræfin upp að Lóni sem ættu auðvitað geysilega vel heima í þessum hálendisþjóðgarði, en þau eru utan annaðhvort þjóðlendu- eða miðhálendislínumarka og við ákváðum að fara þessa leið í byrjun. Framtíðin mun fela það í sér, spái ég, að síðan stækki þessi þjóðgarður að óskum heimamanna, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður hefur gert. En þar hefur í nokkrum tilvikum verið bætt undir hann aðliggjandi svæðum, einfaldlega vegna þess að menn sáu að það var öllum fyrir bestu og sérstaklega svæðunum, og þá kæmist betri stjórn á málið þar.