151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem er alveg dæmigert fyrir stjórnmál samtímans og helsta vanda þeirra, sem er sá að nú til dags snúast stjórnmálin því miður fyrst og fremst um umbúðirnar frekar en innihaldið, heiti mála og yfirlýst markmið þeirra fremur en aðferðirnar sem menn leggja til til að ná þeim markmiðum. Og nú spyrja menn: Hver getur verið á móti stofnun þjóðgarðs? Viljum við ekki öll vernda náttúruna? En þetta er líka dæmigert mál fyrir þessa ríkisstjórn, þessa kerfisstjórn, og nú sjáum við hverjir stjórna í raun, þ.e. ef hæstv. forseti hefur ekki áttað sig á því, Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa nokkrir tjáð sig hér í dag en ekki verið afdráttarlausir. Þvert á móti hafa þeir á einhvern hátt reynt að afsaka það að þetta mál sé komið á dagskrá. Það vekur furðu að svo stórt mál, sem varðar stóran hluta landsvæðis Íslands og framtíð þess og þar með hagsmuni þjóðarinnar, sé komið á dagskrá án þess að stjórnarflokkarnir séu einu sinni sáttir við það.

En aftur að þessu með merkimiðana, merkimiða- eða stimplastjórnmálin, og það sem við höfum heyrt í umræðunni í dag í formi fullyrðinga um að eitthvað sé bogið við að menn séu á móti því að vernda náttúruna eða stofna þjóðgarð. Þá má velta því fyrir sér, með sömu rökum og við höfum heyrt frá stuðningsmönnum málsins í dag, hvort ekki mætti segja að landið ætti allt að verða þjóðgarður, eða a.m.k. Snæfellsnes, einstakt svæði á Íslandi og á heimsvísu, eða allir Vestfirðir, allir Austfirðir, syðsti hluti landsins, strandlengja Suðurlands, hinn stórkostlegi Eyjafjörður, Þingeyjarsýslurnar, Mývatnssveit eða Tröllaskagi, ég tala nú ekki um það. Myndu ekki sömu rök og við höfum heyrt um hálendisþjóðgarð eiga við um þessa landshluta og reyndar fleiri, ef við lítum fram hjá innihaldi málsins? Innihaldið felur það m.a. í sér að með þessu er það svæði sem er hentugast til að framleiða græna, endurnýjanlega, umhverfisvæna orku í raun tekið úr sambandi og tekið undan lýðræðislegri stjórn landsmanna. Og hvaða áhrif hefði það á önnur svæði, aðra landshluta, ef ekki mætti lengur búa til umhverfisvæna orku þar sem það hentar best á ákveðnum svæðum hálendisins og flytja orkuna þar um? Það myndi þá þýða að framleiða þyrfti þá orku annars staðar og flytja hana um þau héruð sem liggja hringinn í kringum landið og hringinn í kringum þennan væntanlega hálendisþjóðgarð.

Einnig er talað um mikilvægi þess að vernda hálendið fyrir ferðamenn. Ekki eru mörg ár síðan veður var með þeim hætti að þegar komið var fram á sumar hafði ekki verið hægt að opna vegi hálendisins. Engu að síður var metár í fjölda ferðamanna á Íslandi. Enginn þeirra, ekki einn, hafði farið inn á hálendið en þeir höfðu komið til að skoða náttúruperlur hringinn í kringum landið. Svo heyrum við núna þá undarlegu þversögn að þetta mál sé lagt hér fram til þess annars vegar að koma í veg fyrir átroðning ferðamanna en hins vegar til að laða ferðamenn inn á hálendið. Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson, einn helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli, skýrði þetta þannig að við þyrftum að koma böndum á ferðaþjónustuna á hálendinu en um leið, útskýrði hann, væru í þessu fólgnir ómældir möguleikar til að auglýsa hálendið, til að laða að ferðamenn. Hver er þá ætlunin í ljósi þessara þversagnakenndu markmiða? Er ætlunin sú að hálendið verði einhvers konar elítusvæði þar sem þeir sem hafa efni á að kaupa sig inn mega ferðast um og njóta en á sama tíma verði öðrum haldið frá? Þetta er a.m.k. afar sérkennilegt sem rökstuðningur í svona stóru máli, að á sama tíma og menn ætli sér með þessu að hefta aðgengi ferðamanna ætli þeir um leið að laða að ferðamenn.

Í Bretlandi eru fjölmargir þjóðgarðar og það sama á við um mörg önnur nágrannalönd okkar. Þar eru bæir, stórir bæir jafnvel, vegir, orkuflutningar, flugvellir og svo mætti lengi telja. En hér virðist ætlunin vera að skilgreina stóran hluta landsins sem þjóðgarð til þess að koma í veg fyrir aðkomu mannsins, til að koma í veg fyrir umhverfisvæna orkunýtingu og koma í veg fyrir að fólk, almenningur á Íslandi og jafnvel erlendir ferðamenn, geti ferðast þar um og notið náttúrunnar á hálendinu. Viljum við frekar ráðast í alla uppbygginguna sem þarf utan hálendisins, reisa þar virkjanir og ráðast í orkuflutninga? Eru það ekki umhverfisspjöll, herra forseti, ef við förum í gegnum fegurstu svæði landsins utan hálendisins? Svo höfum við líka heyrt af umræðunni í dag að mjög mikill skortur er á því að talsmenn málsins geti útskýrt þörfina fyrir þetta mál því að eins og hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar rakti ágætlega í sínu máli þá er þegar hægt að ná yfirlýstum markmiðum þessa máls án þessa frumvarps.

Hver er ætlunin? Hver er raunveruleg ætlun með þessu frumvarpi? Ég held að við vitum það, herra forseti. Ætlunin er sú að taka stóran hluta Íslands undan lýðræðislegri stjórn til þess að geta innleitt þar ákveðnar öfgar. Við höfum séð það gerast áður, á öðrum sviðum. Við höfum séð starfshætti kerfisins. Oft koma mál fram með fallegum heitum og fögrum yfirlýsingum um markmiðin en þegar þingið hefur látið hafa sig út í það að samþykkja málið líður ekki á löngu áður en sagt er: Bíddu við, þið samþykktuð þetta mál og þar af leiðandi er ekki hægt að gera þetta og þetta; þar af leiðandi þurfum við að reiða okkur á stjórn kerfisins. Það sem er hvað sérkennilegast við þetta er að þetta er algerlega úr samhengi við yfirlýst markmið, meginmarkmiðin sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir í umhverfismálum. Og hvaða markmið eru það? Jú, markmiðin um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, því að Ísland framleiðir endurnýjanlega, græna, umhverfisvæna orku og gerir það að miklu leyti á hálendinu. Með þessu móti er í raun tekið fyrir viðbótarframleiðslu og þar með verið að ýta orkuframleiðslu annað, þangað sem orkan er t.d. framleidd með kolabruna. Orkuþörf heimsins vex ár frá ári. Hún vex um 2% eða svo á hverju ári. Þar sem menn nýta ekki tækifærin, í sátt við náttúruna eins og talsmenn þessa máls myndu væntanlega kalla það, til að framleiða umhverfisvæna orku er verið að færa orkuframleiðsluna til landa þar sem hún fer fram með brennslu kola. Þetta mál felur því ekki aðeins í sér takmörkun á möguleikum landsmanna til að ferðast um landið og njóta hálendisins sem okkur þykir öllum vænt um, heldur ýtir það undir losun gróðurhúsalofttegunda.

Maður veltir fyrir sér hvernig svona mál verður til. Jú, upphaflega auðvitað í hópi sem er með mjög þrönga sýn á þessi mál, lítur ekki á heildarmyndina. En hvernig getur staðið á því að ríkisstjórn sem samanstendur af þremur flokkum flytji þetta mál að því er virðist án þess að a.m.k. tveir flokkanna séu sáttir við það og telji það tilbúið, og ætli að drífa það í gegn eins hratt og mögulegt er? Getur verið að þetta sé aftur gamla brellan um að leggja fram mál sem er nógu brjálæðislegt til að geta svo gert örlitlar breytingar á því og koma með það aftur og segja: Jæja, nú höfum við tekið tillit til athugasemda og miðlað málum og málið er skárra þó að það sé eftir sem áður afleitt. Það er það sem ég óttast, herra forseti. Miðað við umræðuna hér í dag og viðbrögð tveggja af stjórnarflokkunum óttast ég að það sé það sem blasir við okkur, að hér hafi komið inn algerlega galið mál, vanhugsað, og svo komi það aftur með smábreytingum og þá verði okkur sagt að nú sé tímabært að klára það.

Herra forseti. Ef við lítum svo á að hálendi Íslands sé heilagt, ef við tökum þá þjóðlegu nálgun á þetta, nánast trúarlegu, að hálendi Íslands sé sérstakt og heilagt fyrir okkur Íslendinga, þá get ég alveg skilið þá nálgun, því að það er til fallegt landslag og fagrar óbyggðir um allan heim. En ef þetta er heilagt landsvæði fyrir okkur Íslendinga þá er líka rétt að við nálgumst það á þann hátt. Í stað þess að loka helgidóminn af ættum við að opna hann, leyfa fólki að njóta náttúrunnar og nýta þann kraft sem býr í náttúrunni til að framleiða orku fyrir Ísland og fyrir heiminn um leið. Í þessu máli eru mjög mörg atriði sem ástæða er til að gera athugasemd við. Eitt þeirra er að samkvæmt áformum um þjóðgarðastofnun geti ráðherra stækkað þjóðgarðinn með reglugerð — og aftur minni ég hæstv. forseta á, eins og við vitum, til hvers refirnir eru skornir; þetta er til þess ætlað að koma kerfinu af stað á sinni braut þannig að ekkert muni fá stöðvað það. En er það lýðræðislegt að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að færa mörkin í framhaldinu? Og er það lýðræðislegt að taka stóran hluta landsins undan lýðræðislegri stjórn landsmanna? Við í Miðflokknum erum þeirrar skoðunar að svo sé ekki.

Nú þegar eru um 70% orkunnar sem við framleiðum framleidd á hálendinu og hér ræðum við frumvarp sem gerir ráð fyrir að taka hálendið inn í svokallaða IUCN-flokkun, flokk II, sem mun einfaldlega þýða að flutningur og framleiðsla orku verður ekki lengur heimil. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að menn ætli að loka þeim virkjunum sem þegar eru til staðar, og þó, maður veit aldrei miðað við hvernig þróunin hefur verið. En það virðist a.m.k. ljóst að ekki verði um frekari umhverfisvæna orkuframleiðslu að ræða á hálendi Íslands, jafnvel ekki á þeim svæðum þar sem tækifærin eru best. Og með því er verið að setja rammaáætlun í uppnám og ekki bara það heldur er verið að henda henni í ruslið. Við sjáum það sem við gátum svo sem sagt okkur fyrir, herra forseti, að þátttaka hinna hörðustu af vinstri kantinum í þeim áformum var alltaf ætluð til að ýta málunum í eina átt frekar en að ná eðlilegri sátt og niðurstöðu.

Þetta er gríðarlega stórt mál og nú verð ég að upplýsa hæstv. forseta um að ég er rétt að komast af stað með innganginn að upphafi ræðu minnar og verð því að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.