151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[23:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef hlustað af mikilli athygli á þær umræður sem verið hafa hér í dag. Það eru nokkur atriði sem standa upp úr eftir það. Í raun réttri skil ég ekki alveg af hverju ríkisstjórnarflokkarnir ætla að leggja fram mál sem virðist vera í fullkomnu ósætti, nú þegar hátíð ljóss og friðar nálgast. Ég skil það bara ekki. Mér hefur dottið í hug að þetta frumvarp sé annað af tvennu; liðskönnun eða jafnvel dulbúin vantrauststillaga, því að ef þetta mál nær ekki framgöngu hér á þinginu — eða treysta ríkisstjórnarflokkarnir, þessi breiða ríkisstjórn með breiðu skírskotuninni, að fulltrúar stjórnarandstöðu muni á einhverjum tíma koma til hjálpar og hjálpa málinu í gegnum þingið? Mér finnst það mjög athyglisvert að menn skuli leggja þetta svona fram vegna þess að það er greinilega engin eining í stjórnarliðinu um þetta mál. Það hefur blasað við í ræðum stjórnarþingmanna í allan dag, hvort sem þeir eru Sjálfstæðismenn eða Framsóknarmenn. Menn gera fyrirvara úti um allt o.s.frv. þannig að þetta mál verður ekki auðvelt viðfangs fyrir ríkisstjórnina eða ríkisstjórnarsamstarfið.

En það er annað sem ég hef verið að horfa á líka. Hægt er að horfa á þetta mál í samhengi við annað sem gerðist í ekki svo langri fortíð. Þá á ég við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á sínum tíma, líklega 1996, ef mér skjátlast ekki. Það var þannig með Vatnajökulsþjóðgarð á sínum tíma að stofnun garðsins fylgdi yfirlýsing um hvað gera ætti í þjóðgarðinum til að gera hann færan til að sinna sínu hlutverki. En þeirri yfirlýsingu, sem er nú nokkuð þykk bók eða bæklingur, fylgdu ekki nægir fjármunir, þannig að Vatnajökulsþjóðgarður fór í sjálfu sér af stað veikburða, þ.e. ekki fjármagnaður að fullu. Menn eru enn að byggja upp nauðsynlegar grunnstoðir í þeim garði svo hann sinni sínu hlutverki. Mitt í þeirri vinnu ætla menn núna að hlaupa til og setja á fót nýjan þjóðgarð. Ég verð að segja að eitt af því sem mér fannst standa upp úr, sérstaklega hjá þeim sem mest töluðu fyrir þessum þjóðgarði í dag, var að þetta yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu. Mér fannst það nú frekar rembingslegt, herra forseti, ég verð að viðurkenna það. Það eru ýmsir aðrir hér innan húss sem hafa verið sakaðir um þjóðrembing en þeir sem upp úr stóð í dag, að þetta væri kannski eitt það merkilegasta sem þarna væri að gerast.

Ég ætlaði að fara aftur í stefnumörkunina því að í sjálfu sér er það afskaplega einfalt mál eftir ákveðna vinnu að skrifa undir plagg um annaðhvort friðlýsingu ákveðins landsvæðis eða stofnun þjóðgarðs á einhverjum stað. Þetta er auðveldi hlutinn, eins og maður segir. En erfiði hlutinn er sá, þ.e. ef fjármagnið fylgir, að þjóðgarðurinn rísi undir nafni og geti sinnt því hlutverki sem honum er ætlað.

Það eru reyndar líka þversagnir í því hvernig þetta mál er sett fram. Málið er sett þannig fram að nú eigi að vernda víðerni Íslands, 30% af flatarmáli landsins. En jafnframt er sagt að byggja eigi upp þjónustu, ferðamennsku o.s.frv. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, vegna þess að ég fer stundum inn í Landmannalaugar og friðland að Fjallabaki, allt of sjaldan að vísu, að mér bregður eiginlega æ meira í hvert sinn sem ég kem þar vegna þess að þar er dæmi um ægifagurt svæði sem búið er að friða, en þar er ekki næg landvarsla. Þarna er utanvegaakstur stundaður í meira mæli en maður hefur víða séð svo stórsér á landinu og það eru engin ráð til vegna þess að ekki hefur fylgt fjármagn til þess að tryggja nægilega landvörslu, eins og óneitanlega hlýtur að þurfa á landsvæði af þessari stærðargráðu og í jafn fjölbreytilegu landslagi og þarna er.

Einnig hefur verið talað um að farið hafi fram mikið samráð við alla aðila, mikið talað um aðkomu bænda í hlutastjórnir, þ.e. þeirra landshluta sem standa að garðinum. Það er svo merkilegt að allar umsagnir sem maður hefur lesið sem komu fram við fyrri framlagningu svipaðs máls hér í upphafi árs, ef ég man rétt — þar er t.d. umsögn frá Bændasamtökum Íslands þar sem menn leggjast gegn því að þetta verði gert. Þar eru umsagnir frá sveitarfélögum sem, ef mér skjöplast ekki, liggja að öllum hlutum þessa fyrirhugaða þjóðgarðs þar sem sveitarstjórnirnar segja: Nei, við viljum ekki að þetta verði gert með þessum hætti.

Síðan er stór hluti af útivistarfólki, ferðamönnum, þ.e. ferðaklúbbnum sem falla hugsanlega undir það sem var hér kallað áðan lítill grenjandi minni hluti. Það kann vel að vera að þetta sé hluti þar af, ég skal ekki segja um það. Menn hafa líka rætt það í dag að þetta svæði sé ekki bara á áhrifasvæði sveitarfélaga, landnotenda og landeiganda sem þarna eiga land að, heldur sé þetta landsvæði allra landsmanna. Ég veit ekki hvernig þetta sama fólk lítur t.d. á landið undir Reykjavíkurflugvelli, að það sé land sem allir landsmenn ættu að hafa og eiga aðgang að og/eða eiga kröfu um hvort nýtt verði til framtíðar. Þetta lyktar af hentistefnu og það er ekki sérlega traustvekjandi, herra forseti.

Ég held að það séu hátt á annað hundrað landsvæða sem hafa verið friðlýst á Íslandi, og fjöldamörg þeirra á síðustu 20 árum. Síðan höfum við líka landsvæði sem kölluð eru náttúruvætti o.s.frv. Ef ég hugsa 40 ár aftur í tímann, um þann tíma sem ég bjó á Austurlandi í nálægð við Helgustaðanámu, man ég að menn, bæði erlendir og innlendir, dunduðu sér við að tæma og ganga illa um námuna vegna þess að þar var enginn landvörður. Það fyrsta sem ég heyrði af landvörslu á því svæði var fyrir um fimm árum síðan þegar þar var einn landvörður í hálfu starfi að sumri til, hann var líklega á svæðinu frá hádegi til klukkan 18 eða eitthvað slíkt. Það sér hver maður á þessu eina atriði að þessu hefur ekki verið sinnt eins og vera ber vegna þess að við höfum ekki haft fjármuni til að gera alla þá hluti sem okkur hefur langað til að gera og eru brýnir. Þannig að ég segi ég aftur: Mér finnst að menn hafi ekki lært nokkurn skapaðan hlut af því sem gerst hefur í þessum málum alla vega undanfarinn áratug, með því að menn ætla að leggja í þetta mál eins og hér er fyrirhugað, í þeirri andstöðu sem er við það án þess að það sé í sjálfu sér fyrir séð að við höfum fjármagn til reiðu, ég tala nú ekki um í því ástandi sem nú er. Þegar við horfum framan í meira en 100 milljarða halla á ríkissjóði næstu tvö, þrjú, fjögur árin sé ég það ekki alveg gerast.

Ég sé heldur ekki annað en að stefnt sé að ekki ósvipaðri stjórnaruppbyggingu og í Vatnajökulsþjóðgarði. Mig langar til að vitna til þess að það er ekki mjög langt síðan Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu þar sem fundið var að því hvernig það stjórnarfyrirkomulag virkaði og það er nú til endurskoðunar. Í sömu skýrslu benti Ríkisendurskoðun á það sama og ég er búinn að gera hér að umtalsefni í ræðu minni, þ.e. að fjármunir fylgdu ekki með þegar Vatnajökulsþjóðgarður var settur á laggirnar. Mér finnst, herra forseti, að við þurfum einfaldlega, þá er ég að tala um þingið, ég tala nú ekki um hina breiðu ríkisstjórn, að undirbúa mál af þessari stærð miklu betur en hér er gert. Verði þetta mál samþykkt á endanum í þeim búningi sem það er nú, óttast ég að garðurinn muni ekki standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar, og að hann verði í stuttu máli hvorki fugl né fiskur. Ég hefði í sjálfu sér ráðlagt ríkisstjórninni með þessa breiðu skírskotun að vera ekki að gera manntal núna um hvort hún hafi meiri hluta fyrir þessu máli á þinginu, heldur að hugleiða frekar málið aðeins og fá alla vega um það sátt í eigin ranni áður en það er lagt hér fram.

Herra forseti. Ég held að það væri affarasælla að fara með mál af þessari stærðargráðu til þings í breiðri samstöðu en ekki í innbyrðis ósætti.