151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[23:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu í dag, sem hefur um margt verið ágæt. Mig langar að koma sérstaklega inn á nokkur atriði sem hér hafa verið til umræðu en áður en ég geri það vil ég fá að þakka þeim þingmönnum sem sátu í þverpólitísku nefndinni sem skilaði því starfi og þeirri skýrslu sem frumvarpið byggir á. Mig langar að byrja á því að koma aðeins inn á tímann, þ.e. þau atriði sem nefnd hafa verið um það hversu mikill undirbúningur hefur verið í þessu máli. Ég vil nefna það sérstaklega að þetta mál hefur verið til umfjöllunar í stjórnkerfinu, í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og víðar, í fjögur og hálft ár. Þar voru forsendur greindar í upphafi með skýrslu nefndar Sigrúnar Magnúsdóttur, um nýtingu og vernd svæðisins, og sú skýrsla liggur fyrir. Þá var það þingmannanefndin, sem margoft hefur verið nefnd hér í dag, sem skilaði sinni góðu skýrslu. Líkt og hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi er búið að mæta mörgu af því sem þar kom fram, en hv. þingmaður nefndi jafnframt að ekki hefði öllu verið haldið til haga, enda vitum við öll að sumu verður ekki hægt að mæta fyrr en búið er að setja þjóðgarðinn á stofn og koma því stjórnfyrirkomulagi á sem þar á að verða til þess að geta komið öllu því til leiðar sem hin ágæta þingmannanefnd hafði til málanna að leggja.

Mig langar að nefna, vegna þess að hér var líka spurt hversu langan tíma tæki að gera stjórnunar- og verndaráætlun og hversu langan tíma tæki að gera atvinnustefnu, að ef við lítum til reynslunnar úr Vatnajökulsþjóðgarði þá tók um tvö ár að ljúka stjórnunar- og verndaráætlun og það tók um þrjú ár að koma á atvinnustefnu frá því að ákvæði um það var sett inn í lögin. Ég tel að við þurfum tvö til þrjú ár til að vanda okkur vel við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hálendisþjóðgarð en atvinnustefnan ætti að geta tekið styttri tíma.

Mig langar aðeins að nefna það sem nokkrir þingmenn komu inn á um jaðarsvæði og orkunýtingu. Meðal annars var talað um að biðflokkurinn væri galopinn fyrir virkjunum, en það er auðvitað ekki rétt. Ef við berum saman stöðu þeirra virkjunarkosta sem nú eru í biðflokki rammaáætlunar inni á hálendinu eins og hún er í dag og það fyrirkomulag frumvarpsins sem hér er gert ráð fyrir þá hljóta þessi svæði, ef eitthvað er, meiri vernd verði frumvarpið að lögum, enda er hér verið að stofna þjóðgarð. Það skýtur þó ekki loku fyrir að einhver svæði gætu bæst við. Það þarf að koma í ljós þegar vinnu rammaáætlunar lýkur um þessi efni. Það var krafa náttúruverndarsamtaka að virkjanir inni á hálendinu yrðu ekki hluti af þjóðgarðinum heldur á jaðarsvæðum hans. Þannig kom það nú til og var sjálfsagt að mæta því.

Hér hefur því verið haldið fram að það sé verið að loka hálendinu. Ég spyr: Er verið að loka hálendinu með þessu frumvarpi? Nei, slíkar fullyrðingar eru beinlínis rangar. Markmiðin eru skýr um að auðvelda aðgengi fólks, 18. gr. er skýr um það, og hér hefur verið komið inn á að dvöl fólks og aðgengi að þjóðgarðinum skuli vera tryggð. Það er verið að byggja upp getu til að taka á móti fólki, bjóða upp á fræðslu, auka öryggi fólks, jákvæða upplifun af svæðinu og þar fram eftir götunum. Hér hefur líka talsvert mikið verið rætt um forsendur og greiningar, m.a. ræddi hv. þm. Jón Gunnarsson það. Ég vil nefna aðeins í tengslum við það að þær nefndir sem hér voru stofnaðar, tvær nefndir, hafa ráðist í það. Ég vil líka nefna rannsóknir sem hafa sýnt að fjármagn sem hið opinbera setur í náttúruvernd skilar sér margfalt til baka, ekki síst til heimahéraða.

Mig langar líka að koma aðeins inn á það sem rætt hefur verið um hefðbundnar nytjar. Það er alveg ljóst að þetta eru lög sem sett hafa verið um þjóðgarða, verði þetta að veruleika, þar sem hefðbundnar nytjar eru sérstaklega tilteknar. Það er mikilvægt að mínu mati að við gerum það. Og hvers vegna er verið að gera það? Meðal annars vegna þess að verið er að mæta kröfum sem komu fram frá heimafólki, frá bændum, frá sveitarfélögum. Og allt tal um að samráð hafi ekki skilað sér — það skilaði sér t.d. í þessu. Þær áætlanir og reglugerðir sem munu gilda í tengslum við hefðbundnar nytjar munu auðvitað gilda á öllu landinu, hvort sem er um sjálfbæra landnýtingu eða veiðar á villtum fuglum og dýrum. Hér hefur því verið brugðist við því sem bæði nefndin kom fram með og því sem rætt hefur verið við mig á ferðum mínum um landið um þetta mál. Þessu hefur verið mætt.

Hér hefur mikið verið talað um samráð eða öllu heldur kannski meint samráðsleysi. Farið hefur verið í gegnum það í ræðum hvernig þverpólitíska nefndin fór um landið, safnaði upplýsingum og á því byggist stór hluti af frumvarpinu. Ég fundaði sjálfur með hverri einustu sveitarstjórn sem land á að hálendinu. Við fundum lausnir á því sem snýr sérstaklega að skipulagsvaldinu. Ég hlustaði á þau sjónarmið og ég mætti þeim sjónarmiðum. Ég veit ekki til hvaða sveitarfélaga þeir hv. þingmenn sem til þess hafa vísað hér í kvöld eru að vísa. Þau sveitarfélög sem ég skildi við í sumar, eftir að hafa lagt á borðið þessa tillögu mína um að stjórnunar- og verndaráætlanir ættu ekki að vera bindandi fyrir skipulag sveitarfélaga, sögðu við mig: Þetta er gott skref. Það eru þær upplýsingar sem ég hef og á því byggi ég þá staðreynd, eða þá skoðun mína hið minnsta, að hér hafi svo sannarlega verið hlustað á sjónarmið í samráði og þeim meira að segja mætt. Það er vel.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst málflutningur sumra þingmanna hér í kvöld, og þá sérstaklega þingmanna Miðflokksins, vera villandi. Þar er viljandi sett fram villandi umræða og rangar fullyrðingar sem ég á óskaplega erfitt með að sætta mig við. Ég hef rakið sumt af því, t.d. varðandi samráðið, t.d. varðandi það að hér sé verið að loka öllu o.s.frv. Þetta er að mínu mati upplýsingaóreiða í boði Miðflokksins.

Mig langar að koma hér inn á annað sem mikið hefur verið fjallað um og það er meint andstaða sveitarfélaganna. Ég veit ósköp vel að það eru mismunandi skoðanir innan sveitarfélaganna, það veit ég sennilega manna best. En eru öll sveitarfélög á móti þessari hugmynd? Það mætti halda af umræðunni hér í kvöld að svo væri. Mest er vitnað til Bláskógabyggðar og reyndar umsagnar sem Bláskógabyggð sendi inn við drög að frumvarpinu sem var í samráðsgátt í fyrra. Það kann vel að vera Bláskógabyggð sé enn sömu skoðunar, en eru öll sveitarfélög enn þá, eins og halda mætti af umræðunni hér, á móti þessum þjóðgarði? Voru þau öll á móti þjóðgarðinum í upphafi? Ég leyfi mér að fullyrða að svo var ekki. Mér finnst í hæsta máta undarlegt að vitna endalaust í umsagnir sem eru í raun löngu úreltar, þær eru við eitthvert allt annað mál en hér er fært fram. En gott og vel, þannig er bara umræðan.

Mig langar aðeins að fara betur yfir skipulagsmálin því að þar finnst mér mestu rangfærslurnar vera. Það er undarlegt að hlusta á umræðu um það og fullyrðingar um það að verið sé að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum þegar margoft hefur verið farið yfir það í þessum ræðustóli í dag, af mér og fleirum, að þeirri gagnrýni sem sveitarfélögin höfðu uppi, þegar kom að skipulagsskyldunni, hefur verið mætt. Ég vona að mér takist að sannfæra þingheim um að þær breytingar sem hafa verið gerðar á þeim hluta málsins eru einmitt til þess gerðar að mæta þessari gagnrýni sveitarfélaganna og sannfæra ykkur öll um það að skipulagsvald sveitarfélaganna er ekki skert með frumvarpinu. Reyndar er það svo, eins og komið hefur fram í máli sumra þingmanna hér í kvöld, að sveitarfélögunum eru færð alveg ótrúlega mikil völd yfir þessu sameiginlega svæði þjóðarinnar sem heitir þjóðlendur. Þau eru í meiri hluta í stjórn þjóðgarðsins, þau eru í meiri hluta í umdæmisráðum og þau eru ekki bundin af stjórnunar- og verndaráætlunum sem þjóðgarðurinn býr til í sinni skipulagsgerð. Vald þeirra er ekki lítið þegar kemur að þessum málum, það er alveg ljóst.

Það má líka spyrja og sumir hafa gert það í kvöld: Hvar verður þjóðgarðinum stjórnað? Við heyrum það í almennri umræðu að auka eigi miðstýringu og færa allt vald til Reykjavíkur. Þau sem svoleiðis tala hafa ekki lesið frumvarpið, það er alveg ljóst. Það er alveg ljóst af stjórnunarhluta frumvarpsins, II. kafla, að þar er verið að setja fram dreifstýrt fyrirkomulag þar sem völdin eru heima í héraði og auðvitað er það þannig, eins og við sjáum af uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs, að langsamlega flest störfin eru úti á landi. Ég nefndi það í framsögu minni að af 34 föstum starfsmönnum haustið 2020 eru 30 á starfsstöðvum þjóðgarðsins og fjórir á höfuðborgarsvæðinu.

Það hefur einnig verið nefnt hér að ekki sé um lýðræðislega stjórn að ræða í þessu fyrirkomulagi, þetta sé eitthvert ríkisbákn. Því fer nú aldeilis fjarri því að sennilega er hvergi lýðræðislegri stjórnun á nokkurri stofnun á Íslandi en akkúrat þessari þar sem ekki er bara um að ræða ríkisstofnun sem sveitarfélögin koma að heldur koma líka aðrir hagsmunaaðilar að. Þetta er módel, þetta er líkan sem við erum búin að reyna í allmörg ár í Vatnajökulsþjóðgarði, hefur gefist vel og er eitthvað sem ég tel mjög farsælt að byggja áfram á. Við stjórnum betur ef fleiri koma að, það hefur reynslan sýnt okkur. Þá getur maður spurt sig: Af hverju er verið að setja svona mikil völd í hendur sveitarstjórna? Svar mitt við því er einfaldlega það að ég treysti sveitarfélögunum og hinum hagsmunaaðilunum ágætlega til að fara með stefnumótandi mál þegar kemur að stjórnun þessa þjóðgarðs sem og annarra.

Mig langar aðeins að taka umræðu hér um Vatnajökulsþjóðgarð því að mér hefur þótt allmikið hallað á þá stofnun í umræðunni hér í kvöld. Ríkisendurskoðun, sem hv. þm. Bergþór Ólason kom m.a. inn á, gerði ákveðnar athugasemdir við rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar hafa verið gerðar breytingar. Í frumvarpinu er m.a. verið að bregðast við sumum af þeim ábendingum og gagnrýni sem þar kom fram, og það er mikilvægt. Margir segja að sporin hræði og horfa til Vatnajökulsþjóðgarðs en þegar ég tala við sveitarfélögin á Vatnajökulsþjóðgarðssvæðinu hefur enginn þar sagst vilja fara til baka. Þau sjá hag sinn í því að vera með þennan þjóðgarð, bæði til þess að vernda náttúruna en líka til þess að efla atvinnuuppbyggingu. Hér hefur líka verið talað um að það skorti meiri reynslu. Ég bendi á að Þingvallaþjóðgarður er 90 ára, Snæfellsjökulsþjóðgarður 20 ára og Vatnajökulsþjóðgarður 12 ára, ég held nú að það sé ágæt uppsöfnuð reynsla. Þá hefur líka talsvert mikið verið fjallað um fjármagn og ég fór ágætlega yfir það í framsöguræðu minni og ætla ekki að endurtaka það. En það er sennilega ekkert náttúruverndarverkefni á Íslandi sem hefur verið tryggt fyrir fram jafn mikið fjármagn og þessu verkefni.

Ég minni á að þetta verkefni er stærsta náttúruverndarverkefni Íslandssögunnar. Þetta er verkefni sem horfir til alþjóðlegra viðmiða sem tekin hafa verið upp í íslenska löggjöf, verkefni sem skapar tækifæri fyrir ferðaþjónustu, ekki endilega inni á hálendinu heldur á landinu öllu, og verkefni sem skilar opinberum störfum, sem auðvitað er byggðamál og því kalla sveitarfélögin jú alls staðar eftir. Pólitíkin í þessu snýst um náttúruvernd, um vernd íslensku víðernanna en líka og á sama tíma um byggðaþróun, jákvæða uppbyggingu atvinnutækifæra og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.