151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[16:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Loga Einarssyni, ég er ósammála og ósátt við þessa skýringu forseta. Mér finnst meira en dansað á línunni varðandi málfrelsi þingmanna þegar svo er háttað að ekki megi segja að ríkisstjórnin megi hafa skömm fyrir. Þetta er hjartans mál. Þetta er hitamál margra flokka, margra þingmanna. Ég held að hæstv. forseti, með fullri virðingu, sem ég veit að reynir að gegna stöðu sinni af miklum sóma, eigi ekki að vera svona hörundsár þegar kemur að ríkisstjórninni því að hann er forseti okkar allra. Hann er ekki forseti ríkisstjórnarinnar, hann er forseti okkar allra. Og það er okkar að verja málfrelsi þingmanna hér. Það hefur að hluta til verið skert, ekki út af forseta heldur út af ástandinu. Þess þá heldur vil ég fá skýrari leiðsögn frá hæstv. forseta um hvað hann er að fara þegar hann setur fram aðfinnslur sínar um málfar þingmanna hér. Í þessari pontu hafa fallið stór og mikil orð eins og gungur, druslur, dusilmenni og ræfildómur, einmitt af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem blessunarlega var þá laus við forsetann Steingrím J. Sigfússon.