151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér erum við enn á ný að greiða fyrir réttlætismáli. Hér erum við enn á ný að sýna hvort við réttum hendurnar að okkar minnstu bræðrum og systrum. Hér erum við enn á ný að bæta aðeins í það sem er í rauninni lögbundið eins og það að láta greiðslur fylgja launaþróun í landinu. Hér erum við að tala um alla félagslega aðstoð, allan stuðning við öryrkja. Hér hefur ríkisstjórnin og meiri hlutinn lagt til 3.632 millj. kr. í málaflokkinn en það fylgir ekki þeirri þróun sem þarf að vera til að við fylgjum gildandi rétti. Flokkur fólksins vill bæta við ríflega 900 millj. kr. til að það verði uppfyllt.

Virðulegi forseti. Ef einhverjir eiga það skilið núna fyrir jólin að við sýnum hvað í okkur býr og tökum utan um fólkið okkar þá eru það fátækustu Íslendingarnir. Við erum að greiða atkvæði hér á hv. Alþingi Íslendinga um þá akkúrat núna. Það er alveg á hreinu að ég skal „blasta“ því alveg út um allt og leggja áherslu á hvernig þið greiðið fyrir (Forseti hringir.) fátæku fólki hér í landinu í síðustu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar.