151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[15:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekki tími til þess að setja vanda heimilanna í nefnd. Þar þarf að bregðast við hratt og vel. Hæstv. ráðherra fór hér yfir hvað ríkisstjórn hennar hefur gert í þeim málum og þrátt fyrir það allt saman er það svo að 1. janúar verða grunnatvinnuleysisbætur, eftir allar hækkanirnar, rétt tæplega 88% af lágmarkstekjutryggingunni. Atvinnulaus maður þarf að vera með þrjú börn á framfærslu sinni til að komast yfir lágmarkstekjutrygginguna. Það er augljóst mál að heimili atvinnulausra hafa orðið fyrir mjög miklu tekjufalli og skuldavandi blasir við á mörgum þeirra heimila. Þúsundir hafa verið lengur en sex mánuði atvinnulausar og vandamálin hrannast upp. Fólk þarf að borga af lánum, borga leigu, borga tryggingar, klæða og fæða börn og aðra heimilismenn.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist í alvöru (Forseti hringir.) nóg gert fyrir heimilin og hvort hún sé sátt við að setja vanda þeirra í nefnd (Forseti hringir.) á meðan brugðist er hratt við vanda fyrirtækja. Það er fínt (Forseti hringir.) en það sama þarf að gera fyrir heimilin.