151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður gefur til kynna að ég hafi sagt hér að nóg væri gert fyrir heimilin. Það kom ekki fram í máli mínu og vægast sagt undarleg ályktun að draga hjá hv. þingmanni. Það sem fram kom hjá mér var að þessar hugmyndir ásamt öðrum verða teknar til skoðunar af félagsmálaráðuneytinu. Við höfum hvað varðar allar okkar tillögur reynt að vanda okkur mjög í því sem við erum að gera, ekki bara fyrir fólk heldur líka fyrir fyrirtæki. Það skiptir einmitt máli að aðgerðirnar hitti í mark og þær hafa vissulega hitt misvel í mark. Það verðum við bara að horfast í augu við. Heilt yfir myndi ég hins vegar segja að aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna Covid, og þá er ég að tala um hinar efnahagslegu og samfélagslegu aðgerðir, hafi borið góðan árangur og ég er þess fullviss að þegar fer að birta til í efnahagslífinu verðum við mjög fljót að spyrna frá botni og ná öflugum vexti í efnahagslífi okkar. Þar skipta miklu máli allar þær aðgerðir sem við höfum ráðist í hingað til, bæði þær sem hafa verið fyrir fólk og fyrirtæki. Ég hef ekki áhyggjur af því að ekki verði brugðist hratt við. Það hefur verið brugðist hratt við hingað til og verður áfram.