151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég efast ekki um að innan þeirra samtaka sem þingmaður nefndi sé fólk sem hafi þekkingu eða reynslu á þessu sviði, hafi upplifað þessar aðstæður eða einhver nákominn þeim. Sjálfur þekki ég alveg yndislega manneskju sem náði að gerast kona sem var lífsspursmál fyrir viðkomandi, og að sjálfsögðu fagna ég því mjög. Maður getur ekki sett sig í spor þeirrar yndislegu manneskju, hvernig lífið hefði annars verið. Það er rétt hjá þingmanni að auðvitað eigum við öll að temja okkur meira umburðarlyndi. Umburðarlyndið hefur svo margar hliðar í raun, eins og í þessu máli. Við viljum sýna umburðarlyndi gagnvart börnunum, gagnvart ákvörðun þeirra, gagnvart æsku þeirra, gagnvart framhaldinu í lífi þeirra en okkur greinir kannski á um áherslurnar hvað það varðar, hvernig umburðarlyndið eigi að koma fram. Það sem ég var fyrst og fremst að velta fyrir mér áðan var varðandi þennan fjölda. Þingmenn geta auðvitað komið hér upp og sagt: Það er nóg að einn aðili skuli vilja breyta til eftir aðgerð, sé sem sagt ósáttur við aðgerð sem gerð var á honum sem ungbarni eða barni. Mig langaði bara fyrir forvitni sakir að vita hve margir þeir einstaklingar eru sem gerðar hafa verið aðgerðir á og hve margir hafa verið ósáttir við það þegar þeir þroskast.