151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[14:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er gleðidagur í dag á Alþingi þegar við, ef að líkum lætur, samþykkjum þrjú frumvörp sem fela í sér mikilvægar réttarbætur fyrir hinsegin fólk, sérstaklega fyrir trans og intersex börn, rétt til frelsis, rétt til sjálfræðis, mannréttindi. Ég verð þó að segja að það hefur sett að mér hálfgerðan óhug að fylgjast með málflutningi Miðflokkskarla í þessum málum, m.a. hér í þingsal. Það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en sem mannfyrirlitningu og sem afneitun á tilvist trans og intersex barna. Sem betur fer hefur þessi málflutningur ekki náð neinu flugi, auðvitað ekki. Það er mikill og sterkur meiri hluti fyrir þessum mikilvægu réttlætismálum hér á Alþingi í dag, því að hvernig samfélagi værum við, löggjafinn, að stefna ef við útilokuðum tiltekna hópa, okkar viðkvæmustu hópa, frá því að njóta almennra mannréttinda, þeirra sömu mannréttinda og við teljum sjálfsögð fyrir okkur sjálf? (Forseti hringir.) Ég er stolt af afstöðu hins stóra meiri hluta þingsins í dag.

Við í Viðreisn segjum já. Við segjum sem betur fer og við segjum loksins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)