151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

397. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmann segi ég bara: Rólegur, kúreki. Það er einfaldlega ekkert verið að fjalla um hlutfall fjárveitinga til fréttastofunnar í þessari þingsályktunartillögu. Það er einmitt sérstaklega komið inn á það að dagskrárgerð lúti sömu lögmálum í hugum málsflytjanda. Nú kristallast að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé virðist hvorki hafa lesið þingsályktunartillöguna né hlustað á framsögu mína sem er auðvitað bara eins og það er og ég á erfitt með að leiðrétta það. Ég verð þó að leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þingmanns í seinna andsvari, að ég hefði verið að vísa til þess að fréttastofan stýrði fréttaflutningi og skoðanamyndun. Þegar ég kom inn á það í svari mínu var ég að tala um fréttastofur í alræðisríkjum. Það er lágmarkskrafa að hv. þingmaður hlusti á þann sem er að svara honum ef það á að vera eitthvert vit í framhaldsandsvari.

Ef það á að bera saman stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði á Íslandi við t.d. stöðu ríkismiðilsins BBC í Bretlandi þá er þar mjög ólíku saman að jafna. Ég skal fara í gegnum það í miklum „díteil“ en það er ekki mögulegt í stuttu andsvari. En það er hreinlega fáránlegur samanburður að leggja það að jöfnu.

Við hv. þingmann vil ég segja: Yfirburðastaða Ríkisútvarpsins á þessum markaði er með þeim hætti að það er hér um bil óbærilegt við að vera fyrir einkarekna miðla. Sama þunga staða er hvað almenna dagskrárgerð varðar en þetta er augljósast í fréttavinnslunni, (Forseti hringir.) svo maður segi það bara eins og það er. Í því felst engin gagnrýni á störf fréttastofunnar. Það er aðeins (Forseti hringir.) verið að benda á að fjárhagslega er það alger yfirburðastaða (Forseti hringir.) sem Ríkisútvarpið hefur.