151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðu um þetta mál hef ég tekið eftir því að sumir deila skoðun sinni á því og það virkar þannig að hún sé til komin af umhyggju og áhyggjum af líðan barna. Það er í eðli sínu virðingarvert viðhorf. Aftur á móti erum við stundum ekki alveg sammála um hvernig leysa eigi vandamál, jafnvel þegar við erum sammála um að vandamál sé til staðar. Það getur lýst ákveðnum misskilningi á því hver beri ábyrgð á hverju þegar fólk leggur til lausnir sem ekki taka mið af því hvar ábyrgðin liggur.

Vandamálið sem ég er að tala um er einelti, stríðni og aðrar tegundir af ofbeldi, ýmist líkamlegu eða andlegu. Það er fólk sem telur mikilvægt að „laga“ manneskjur sem fæðast með einhvers konar einkenni, í þessu tilfelli kyneinkenni, sem eru líkleg til þess að verða tilefni stríðni, eineltis eða slæmrar framkomu annarra síðar á lífsleiðinni. Ég átta mig á því að þessi orðræða kemur til af hlýhug en hún varpar ábyrgðinni á rangan stað. Þegar fólk verður fyrir ofbeldi eða einelti — og einelti er reyndar ofbeldi að mínu mati — er það ekki sá eða sú eða hán sem verður fyrir ofbeldinu sem á að breytast. Það er fólkið sem beitir ofbeldinu sem á að breytast.

Mér leiðist að draga fram persónulega reynslu mína í pontu, mér finnst það leiðinlegt. Mér finnast leiðinlegar umræður sem snúast um persónulega reynslu þingmanna almennt og sömuleiðis getur það verið ómálefnalegt vegna þess að aðrir hv. þingmenn hafa ekki innsýn og þar af leiðandi ekki getu til að svara einhverju um persónulega reynslu annarra. Það er að hluta til ástæðan fyrir því að mér finnst það oft leiðinlegt. En ég verð eiginlega að gera það í þessu tilfelli vegna þess að ég veit alveg hvað ég er að tala um þegar kemur að því að verða fyrir aðkasti, einelti og ofbeldi af hálfu annarra fyrir það að vera það sem ég er og sá sem ég er.

Á sínum tíma, þegar ég varð fyrir þessari reynslu, lærði ég mjög hratt hvað fullorðið fólk getur verið — fyrirgefið, virðulegur forseti — heimskt, hvað fullorðið fólk getur sagt heimskulega hluti. Það er fátt sem ég man jafnskýrt úr æsku minni og nákvæmlega það hvað fullorðið fólk getur verið reynslumikið, stórt, líkamlega stórt miðað við barnið sem ég var þá, en samt svo gjörsamlega skilningslaust á aðstæðurnar. Það sem fullorðið fólk sagði stundum við mig þegar ég átti í mínum vanda var: Vertu bara þú sjálfur. Síðan vex maður úr grasi og maður lærir það á lífsleiðinni að það var ekki það sem fullorðna fólkið vildi vegna þess að ég var ég sjálfur. Svona var ég bara. Ég var bara skrýtinn, ég var óvenjulegur. Það var ég, það var egóið mitt, það var sjálfið mitt, sálin mín. Væntingin var: Vertu eins og venjuleg manneskja. Það var það sem verið var að biðja mann um á þeim tíma. Af hverju lagar þú þig ekki? Af hverju á allur heimurinn að eltast við að þú sért svo sérstök manneskja? Hvað með að heimurinn bara láti mann í friði og sleppi því að dæma mann, sleppi því að beita mann ofbeldi og leggi mann einelti fyrir það að vera öðruvísi en aðrir? Hvernig hljómar það, virðulegi forseti?

Þess vegna, þótt mér leiðist að bera tilfinningar mínar á torg, særir það mig persónulega þegar fólk lætur eins og það sé á ábyrgð þeirra sem eru frábrugðnir öðrum að breyta sér frekar en þeirra sem beita ofbeldinu að breyta sér. Það er uppgjöf fyrir ofbeldinu. Það er réttlæting á ofbeldinu. Ég veit að það er ekki það sem hv. þingmenn meina frá hjartanu. Ég veit að það er ekki það sem þeir halda að þeir séu að segja. En það er það sem ég heyri og fullt af fólki þarna úti heyrir, fólk sem verður fyrir aðkasti vegna þess að það er á einhvern hátt frábrugðið öðrum.

Það gleður mig rosalega mikið að vera núna orðinn svokölluð fullorðin manneskja — hversu mikið verða aðrir reyndar að dæma um — og búa í samfélagi þar sem er að verða til skilningur á því að ábyrgðin liggur ekki hjá þeim sem er einhvers konar frávik við einhvers konar norm og verði að breyta sjálfum sér þannig að viðkomandi henti norminu. Normið sjálft er bara ekkert það mikilvægt. Það er ekki það mikilvægt að við séum öll eins. Það er bara ekkert mikilvægt. Það skiptir engu máli. Það er grundvallarmunur á því að eiga við vandamál að stríða vegna þess að maður fellur ekki í normið, passar ekki í kassann annars vegar og hins vegar því að eiga við heilsufarsleg vandamál að stríða.

Þetta frumvarp er samið, og það sést við lestur þess, með tilliti til þeirrar staðreyndar að við getum fæðst með heilbrigðiskvilla. Þeir geta bitnað á kyneinkennum okkar, á kynfærum okkar, eins og hverju öðru sem tilheyrir mannslíkamanum eða huganum eða sálinni. — Sleppum kannski sálinni, við förum ekki út í það. — Og hvers vegna ætti ekki að taka tillit til þess? Hvers vegna myndu þau sem sömdu þetta frumvarp bara henda heilsu barna út um gluggann til þess að senda einhver pólitísk skilaboð?

Ég er nú ekki mikið fyrir að hrósa hv. þm. Páli Magnússyni fyrir ræður en ég verð að hrósa honum fyrir þá stuttu ræðu sem hann hélt hér og las sumum pistilinn vegna orðræðunnar sem fengið hefur að heyrast hér á hinu háa Alþingi um þá fáránlegu hugmynd að sérfræðingar sem helga líf sitt því að annast börn og sinna börnum myndu einhvern veginn taka þátt í því að koma í veg fyrir að börn fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það er bara ekki þannig, virðulegi forseti. Það sem okkur greinir kannski á um í þessum þingsal er hvað telst nauðsynleg heilbrigðisþjónusta og í því sambandi, hvað teljast vera raunverulegar heilbrigðisástæður annars vegar og hins vegar félagslegar ástæður. Það er einfaldlega ekki það sama.

Manneskjan, einstaklingur af tegundinni homo sapiens, er bæði líkamlega og andlega þannig að eiginlega hvað sem er getur farið úrskeiðis með einhverjum hætti. Þess vegna eru læknavísindin oft flókin, sérstaklega þegar kemur að siðferðisspurningum. Skýrar línur eru ekki endilega það aðgengilegar. Þess vegna er mikilvægt að til staðar séu ferlar til að meta mál sérstaklega. Ég fæ ekki betur séð en að það sé gert í þessu frumvarpi. Þegar hv. þingmenn koma hingað og láta eins og verið sé að fórna heilbrigðishagsmunum barna finnst mér eins og þeir séu að lesa upp úr einhverju öðru frumvarpi en því sem ég hef fyrir framan mig. Það rímar ekki alveg, annars vegar textinn sem ég les og hins vegar sú orðræða sem ég nefndi hér.

Að því sögðu má vel vera að það þurfi að endurskoða eitthvað hér á einhverjum tímapunkti. Ég held að við komumst aldrei fram hjá því þegar kemur að heilbrigðismálum eða læknavísindum almennt. Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt. Það koma alltaf upp einhver ný tilvik sem krefjast þess að við endurskoðum hug okkar. Þetta frumvarp er slík afleiðing vegna þess að það er fólk í samfélaginu sem varð fyrir inngripum sem það vildi helst hafa sloppið við, inngripum sem gerð voru til að gera manneskjur meira normal, meira venjulegar þannig að þær pössuðu betur í litla sæta boxið sem við eigum víst öll að passa í.

Nei, virðulegi forseti. Þó að ég haldi að fullorðna fólkið hafi á sínum tíma misskilið hvað það sjálft var að segja trúi ég samt orðunum sjálfum: Vertu þú sjálfur.