151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að fylgjast með umræðunum í gær. Ég hlustaði á eitthvað af þeim í morgun og las sömuleiðis nefndarálit og tók síðan þátt í umræðu í morgun um annað mál. Það voru fjögur nefndarálit um þetta mál, breytingartillögur í öllum þeirra, og ein breytingartillaga að auki úr fimmtu áttinni. Málið var rætt hér í gær frá kl. 9 að kvöldi til kl. 20 mínútur yfir 2. Það er ljóst að umræðan er allt of stutt til að fara yfir efnisatriði málsins. Ég tel einsýnt að aftur þurfi að fara yfir þau á nýju ári.

Ég vil einnig benda á að ég sker mig aðeins úr í þingflokki Pírata að þessu sinni að því leyti að ég er ósammála restinni af þingflokknum um eitt atriði í breytingartillögunum en þó sammála hinu sem, meðan ég man, er nokkuð sem við hefðum átt að ræða miklu meira. Það sýnir hvernig efnahagslegir þættir málsins hafa áhrif á hvernig pör skipta fæðingarorlofi. Allt það hefði þurft meiri umræðu. Nú er ég búinn með tímann og ég hef rétt svo lýst því yfir að það vanti meiri umræðu.

Virðulegi forseti. Ég vona innilega að við tökum þetta mál aftur upp á nýju ári (Forseti hringir.) og höldum áfram umræðu um þetta mikilvæga kerfi því að það þarf að virka. (Forseti hringir.) Við hefðum alveg getað haft miklu meira samtal hér um þetta.