151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er gleðilegt að þetta mál skuli vera að nálgast afgreiðslu hér í þingsal. Þetta er gott mál og langþráð í stóru myndinni. Ljóst er að tekist hefur verið á um skiptinguna, í nafni valfrelsis af ýmsum. Ég styð valfrelsi en ég styð það eingöngu þegar það þýðir raunverulegt frelsi, þegar leikreglur á þeim markaði sem við erum að tala um verða þannig að það er raunverulegt val þeirra sem á staðnum eru til að taka ákvarðanir sem þeim henta best. Við búum ekki við þær leikreglur núna, m.a. vegna þess hvernig fjármagninu er skipt. Við í Viðreisn leggjum til breytingartillögu sem hækkar bæði þak og gólf. Ég veit að í þessum sal er ekki endilega grundvallarágreiningur um það mál. Það er ágreiningur um forgangsröðunina, hvort nú sé rétti tíminn. Þá vil ég bara segja: Þetta skiptir máli fyrir viðspyrnu atvinnulífsins.