151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er í stórum dráttum mikið fagnaðarefni að koma hingað og ná að samþykkja 12 mánaða fæðingarorlof. Það er mikilvægt og dýrmætt skref en engu að síður eru blikur á lofti og ég held að orð síðasta ræðumanns undirstriki kannski þá miklu gjá sem er á milli flokka hér þegar kemur að jafnrétti. Það er tómt mál að mínu viti að tala um svigrúm. Það er tómt mál að mínu viti að tala um frelsi þegar jafnrétti er ekki til staðar og þrátt fyrir að við höfum komist langt á síðustu 20 árum er enn þá kynbundinn launamunur í samfélaginu. Ég vil leyfa mér að vitna til hv. þm. Péturs heitins Blöndals sem sagði á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Til þess að hæfileikar hvers einstaklings nýtist þjóðfélaginu til fulls verður að ríkja fullt jafnrétti til starfa þannig að hæfasti einstaklingurinn verði ætíð ráðinn. Svo er ekki í dag. Misrétti á milli fólks birtist í misrétti milli karla og kvenna sem er hrópandi og það verður að laga með öllum tiltækum ráðum.“