151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:59]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, samflokksmaður minn, kom með í fyrsta skipti sem hann kom hingað upp og talaði um þetta, við hefðum þurft miklu lengri og ítarlegri umræðu um málið hér í þingsal áður en það komst jafn langt og raun ber vitni. Við sjáum það bara á þeim stríða straumi þingmanna og ráðherra sem koma hingað í pontu. Það hefði þurft að dýpka umræðuna. Eðli málsins samkvæmt erum við flest hér inni sammála um að jafnrétti sé gott, við erum sammála um að frelsi og svigrúm fyrir einstaklinga og fjölskyldur sé gott. Við erum bara ekki alveg sammála um útgangspunktinn og hvernig við komumst að þeirri niðurstöðu. Útgangspunktur frumvarpsins sem við ræðum hér var að verulegu leyti þarfir vinnumarkaðarins eða réttara sagt veruleiki vinnumarkaðarins og hvernig hann snýr að konum. Ef maður skipar starfshóp er samsetning þess hóps að fara að gefa sterklega til kynna hvernig niðurstaðan verður. (Forseti hringir.) Upphafsskrefið hjá okkur Pírötum hefði verið að hafa málsvara barna við borðið líka. Það var ekki gert. (Forseti hringir.) Ég ítreka: Meiri umræðu um svona mikilvæg mál.