151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

aurskriður á Austurlandi.

[15:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og vil brýna hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla í þessum verkefnum. Þau eru mikilvæg og við höfum séð það á síðustu árum. Það voru mikil óveður hér í fyrravetur, við sáum snjóflóð flæða yfir varnargarða á Flateyri, við sáum skriðuföllin núna á Seyðisfirði og við vitum að öfgar í veðurfari eru orðnar meiri. Ríkisstjórnin hefur komið sér saman um metnaðarfull markmið í loftslagsmálum til að draga úr losun koltvísýrings. Það er mikilvægt og við þurfum öll að sameinast um þær leiðir sem þar er bent á. En ég er í rauninni að velta fyrir mér hvernig við erum undir það búin að lifa með þeim breytingum sem orðnar eru og munu verða af áhrifum loftslagsbreytinga. Hvernig tryggjum við öryggi fólks hér á landi á þeim tímum sem fram undan eru þar sem við sjáum þessar miklu öfgar og við vitum að innviðir okkar þurfa að vera undir það búnir að takast á við miklu meiri öfgar í veðurfari?