151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða .

419. mál
[17:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 626 sem er 419. mál um breytingu á lögum nr. 79/97, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er varðar veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja. Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði upp aflamarksstjórn við veiðar á grásleppu, sandkola í allri fiskveiðilandhelginni og sæbjúgum. Auk þess er lagt til að sett verði ákvæði í lög um stjórn fiskveiða sem heimilar ráðherra að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði.

Markmið fiskveiðistjórnar er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna Íslands og tryggja þannig trausta atvinnu og byggð í landinu. Veiðum á helstu nytjastofnum er stjórnað með úthlutun aflamarks til skipa við upphaf hvers fiskveiðiárs á grundvelli aflahlutdeildar sem skip hafa. Slík fiskveiðistjórn hefur reynst góð með tilliti til þess hve auðvelt er að stýra því hvaða magn er veitt hverju sinni og hagkvæmni í greininni hefur aukist. Á þennan hátt hafa sjálfbærar veiðar verði tryggðar, verið hvatning til nýsköpunar þar sem aðilar reyna að fá sem mest verðmæti úr aflahlut sínum og stuðlað að stórbættri umgengni um auðlindina. Veiðum í nokkrum nytjastofnum er enn stjórnað með sóknartakmörkunum.

Á undanförnum árum hafa vissar áskoranir komið upp varðandi stýringu veiða á grásleppu og staðbundnum hryggleysingjum og hefur stjórnun þessara tegunda sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og leiða til kapphlaups, að veiðarnar séu ekki nógu fyrirsjáanlegar fyrir þá sem þær stunda. Með frumvarpi þessu er ráðgert að laga framangreinda vankanta og mun ég víkja nánar að einstökum þáttum frumvarpsins.

Lagt er til að tekin verði upp aflamarksstjórn við veiðar á grásleppu auk þess sem lagðar eru til nokkrar breytingar á lögum sem nauðsynlegar eru til að aðlaga stjórn grásleppuveiða að aflamarksstjórn.

Í fyrsta lagi er lagt til að við lög um stjórn fiskveiða bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem skipum verði sett aflahlutdeild í grásleppu. Lagt er til að veiðireynsla grásleppu verði ákvörðuð út frá þremur bestu veiðitímabilum af sex frá og með 2014 til og með 2019 á því leyfi sem skráð er á skip. Í öðru lagi verði sett 2% hámarksaflahlutdeild í grásleppu til að tryggja dreifða aflahlutdeild. Í þriðja lagi að sett verði heimild fyrir ráðherra til að undanskilja grásleppu frá ákvæði um veiðiskyldu með reglugerð leiði markaðsaðstæður til að ekki sé réttlætanlegt að halda til veiða. Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði með reglugerð að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar ef aðstæður leiða til þess að æskilegt verði að svæðisskipta grásleppuveiðum.

Þá er lagt til í frumvarpinu að sett verði bráðabirgðaákvæði við lög um stjórn fiskveiða sem mælir fyrir um hlutdeildarsetningu sandkola í allri fiskveiðilandhelginni. Í dag eru veiðar á sandkola frjálsar frá Snæfellsnesi norður um að Eystrahorni en lúta aflamarksstjórn utan þess svæðis. Lagt er til að aflahlutdeild í sandkola verði endurreiknuð við upphaf fiskveiðiársins 2021/2022 með þeim hætti sem hér segir: 85/100 hlutum samkvæmt skráðum aflahlutdeildum hvers fiskiskips í sandkola við upphaf fiskveiðiársins 2021/2022 og að 15/100 hlutum samkvæmt veiðireynslu hvers fiskiskips utan aflamarkssvæðis í sandkola á fiskveiðiárinu 2017/2018 og 2019/2020.

Á undanförnum árum hefur áhugi á veiðum á hryggleysingjum, svo sem sæbjúgum og ígulkerjum, aukist og nú er svo komið að ráðgjöf er veitt fyrir þrjú svæði í ígulkerjum og fyrir átta svæði í sæbjúgum. Þá má nefna að ráðgjöf fyrir beitukóng er einnig veitt fyrir tvö aðskilin svæði.

Þar sem gildandi lög gera ekki ráð fyrir staðbundinni aflamarksstýringu er með frumvarpinu lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði. Þá er einnig lagt til að við lög um stjórn fiskveiða bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt er fyrir um að við upphaf fiskveiðiársins 2021/2022 skuli setja sjálfstæða aflahlutdeild í sæbjúgum á hverju veiðisvæði sem skilgreind eru í reglugerð um veiðar á sæbjúgum.

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægður með að þetta frumvarp sé komið til efnislegrar meðferðar á Alþingi. Við vitum það öll sem hér erum að skoðanir hafa verið skiptar um veiðistjórn á grásleppu á mörgum undanförnum árum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni, bæði við grásleppusjómenn og þingmenn, að ég sé reiðubúinn til samtals um breytingar á frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir til að ná enn meiri sátt um markmið frumvarpsins. Ég nefni sem dæmi í því sambandi reglu um 2% hámarkshlutdeild sem er þess eðlis að mögulega þarf að endurskoða þá tölu. Ég veit að meiri hluti þeirra sem hafa stundað grásleppuveiðar á undanförnum árum styður frumvarpið og ég nefni því til stuðnings að nýverið tók ég við yfirlýsingu frá 244 grásleppusjómönnum sem lýsa yfir fullum stuðningi við það. Þetta er meiri hluti þeirra sem hafa leyfi og um 76% grásleppusjómanna tóku afstöðu. Aðrir voru hlutlausir eða andsnúnir frumvarpinu. Ég tel augljóst að hægt sé að skapa almenna sátt um frumvarpið, fyrst og síðast meðal grásleppusjómanna sem stunda þessa atvinnugrein þó að aldrei verði allir sammála. Ég vona að það takist að ljúka þessu máli fyrir komandi vertíð sem hefst innan tiltölulega skamms tíma.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.