151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða .

419. mál
[18:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra hefur hér mælt fyrir breytingum á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða. Þær varða grásleppu, sandkola og hryggleysingja. Hann gerði það sköruglega og var sannfærður eins og hans er von og vísa.

Ég vil leyfa mér að einbeita mér að einni af þessum þremur fisktegundum, grásleppunni. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er nauðsyn þess og hver er sú sýn sem ræður því að kvóta er nú skellt á grásleppuna? Enn fremur: Voru aðrir kostir metnir áður en þessi varð ofan á? Aflaheimildir verða framseljanlegar, eins og ég skil það, en er ráðherra ekkert hugsi yfir því að með þessari breytingu verði farið að fénýta þær heimildir, þvert á yfirlýstan tilgang, eins og gerst hefur í stóra fiskveiðistjórnarkerfinu? Grásleppuveiðarnar eru sérstakar að mjög verulegu leyti. Þar eru svæðisbundnar, þær eru bundnar ákveðnum átthagaböndum og tengjast menningarlegri hefð. Telur ráðherra ekki líkur á því að heimildirnar þjappist á færri hendur og það sama gerist og í stóra kerfinu? Vildi hæstv. ráðherra kannski dýpka þessar hugleiðingar örlítið?