151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða .

419. mál
[18:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um málið. Ég vil í þessu sambandi aðeins nefna, af því að komið hefur fram ótti við samþjöppun og áskoranir um að aðrir kostir séu skoðaðir o.s.frv., að árum saman hafa aðrir kostir verið gaumgæfðir og skoðaðir, árum saman. Þeir sem stunda þessa grein og hafa gert á undanförnum löngum tíma eru í mínum huga mjög sammála um að þetta sé í rauninni sá kostur sem sé skástur í þeirri stöðu sem greinin hefur búið við undanfarin mörg ár. Ég held að við getum verið alveg sammála um að dómurinn yfir því hversu ótækt þetta kerfi hefur verið sjáist best á því hver hnignunin hefur orðið í kerfinu sjálfu. Bátum hefur fækkað þar. Meðaltalið er svona 15 á ári, um 150 grásleppubátar hafa horfið út úr kerfinu á síðastliðnum tíu árum. Sóknin hefur dregið dám af því. Svo eru menn að prísa þetta og reyna að ríghalda í það. Ég átta mig ekki á hvaðan þær hugmyndir eru komnar að þessi breyting, ef hún gengur eftir, leiði til þess að hér verði bara 50 bátar á grásleppu. Ég er ekki þess umkominn að segja til um það hvaða fjöldi kemur til með að stunda þetta. Ég segi bara: Miðað við að bátarnir eru 209 í dag og miðað við sömu þróun og hefur verið síðastliðin tíu ár stefnir í að eftir tíu ár verði að óbreyttu 50 bátar á þessu, ef þetta heldur svona áfram, þegar það voru 200 bátar á síðustu vertíð.

Þetta frumvarp er ákall frá þeim sem hafa stundað veiðarnar. Ég vil nefna það hér af því að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir spurði eftir því hvort engar konur væru í þessum hópi að jú, það eru konur, alla vega eins og ég hef lesið þennan undirskriftalista. Ég kann engar skýringar á því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi hér áðan um hvernig hann væri samansettur. Ég kann þær ekki. Samkvæmt þessu skjali, sem ég veit að hv. þingmaður hefur fengið, eru 449 grásleppuleyfi í landinu. Þar af voru handhafar 244 leyfa sammála því að þetta væri það skásta í stöðunni, það skásta sem úr þessu væri hægt að gera. Ég átta mig bara ekkert á því hvernig við eigum að hafa vit fyrir þessu fólki sem kann þetta og stundar þetta best.

Út af umræðunni um samþjöppunina vil ég bara segja að með óbreyttu kerfi verða 50 bátar eftir í þessu eftir önnur tíu ár miðað við hvernig þróunin hefur verið síðastliðin tíu ár. Ég segi bara: Menn ætla greinilega ekkert að bregðast við því. Grásleppusjómenn þekkja þetta umhverfi manna best eftir áratuga starf. Þeir hafa sjálfir haldið því fram, og ég er sammála þeim áherslum sem þeir hafa sett fram þegar þeir tala fyrir þessu máli, að breytingarnar leiði til hættuminni sjósóknar, betri nýtingar veiðarfæra og bátstækja. Það er aukið svigrúm til að skipuleggja eigin útgerð, það dregur úr olíunotkun, það fækkar netum í sjó og þar með tjónum á netum og þar af leiðandi verða færri drauganet í sjónum. Ég trúi ekki öðru en að þeir sem bera umhverfismálin fyrir brjósti í íslenskri pólitík taki undir þessi sjónarmið og leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að þetta geti gengið fram. Í núverandi kerfi er það svo og hefur verið lengi að veikindi eða bilanir á bátunum eða ófyrirséð önnur atvik hafa dregið úr möguleikum grásleppusjómanna til að sækja vegna þess að þetta eru dagar sem þeir hafa fengið. Þeir telja að það komi til með að detta upp fyrir. Ýmsir fleiri þættir eru til teknir sem ég treysti að komi fram í umfjöllun nefndarinnar.

Í mínum huga er stóra málið í þessu það að gefa þeim sem stunda þessa atvinnugrein meiri færi til að búa til meiri verðmæti fyrir sjálfa sig og samfélagið allt, í formi fjármuna en ekki síður til muna meira öryggis við að sækja sjóinn og í því að umgengnin við auðlindina verður með öllum hætti ábyrgari ef þetta gengur eftir í stað þeirrar sóunar og illu umgengni sem viðgengst í núverandi kerfi.