151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

almannavarnir.

443. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er almennt ekki öfundsverð staða fyrir ráðherra sem aðhyllist frelsið og talar oft um mikilvægi þess, eins og þessi ágæti ráðherra gerir, að flytja mál sem þetta, það felur auðvitað í sér að tímabundinni takmörkun á rétti fólks er viðhaldið um eitt ár í senn. Í greinargerð frumvarpsins kemur hins vegar fram að til standi að leggja fram frumvarp þar sem þetta verði gert varanlegt með einhverjum hætti. Þetta er auðvitað alltaf bara sama gamla spurningin um það hvenær almannahagsmunir komi framar frelsi einstaklingsins. Hér er auðvitað um afskaplega mikilvæg réttindi að ræða en við tökumst á um það þegar það frumvarp kemur, geri ég ráð fyrir.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra út í annað ákvæði sem er í almannavarnalögum, nefnilega 19. gr., sem fjallar um almenna borgaralega skyldu. Þegar hún er lesin er hún ansi víð og hefur verið gagnrýnd í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi í huga eða hafi jafnvel nú þegar skoðað möguleika á því að þrengja það ákvæði eða á einhvern hátt draga úr þeirri stórkostlegu frelsisskerðingu sem það boðar mögulega á hættustundu. Þá vil ég láta það fylgja að ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því að það ákvæði verði misnotað af yfirvöldum í þessum heimsfaraldri, hef enga ástæðu til að ætla það. En eins og sagan kennir okkur, stundum mjög dónalega, komast stundum til valda einstaklingar sem eru reiðubúnir til að misnota ákvæði sem eru sett í lögmætum og jákvæðum tilgangi. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún hyggist endurskoða það ákvæði og leggja fram frumvarp til breytinga þar á.